Öll börn í London á aldrinum eins til níu ára verða bólusett gegn mænusótt eftir að veiran sem veldur sjúkdómnum fannst í 19 mismunandi skólp sýnum.

Þetta kemur fram á vef The Guardian en yfirvöld telja að með þessu bólusetningarátaki verði hægt að tryggja að veiran fari ekki í dreifingu innan samfélagsins.

Veiran fannst fyrst í skólpi í febrúar í London í hverfunum Camden, Barnet, Hackney, Haringey, Islington og Waltham Forest. Þessi svæði eru með lágt hlutfall bólusettra gegn mænusótt og því óttast yfirvöld að veiran gæti byrjað að berast á milli manna.

Engin tilfelli um mænusótt hafa enn verið tilkynnt á svæðunum yfirvöld telja nauðsynlegt að bregðast við vegna fjölda jákvæðra sýna úr skólpi.

Smávægilegt magn af veirunni finnst í skólpi í Bretlandi á ári hverju og telst það eðlilegt. En magnið sem fundist hefur á svæðinu er talið óvenjulega mikið sem bendi til mögulegrar dreifingar veirunnar í samfélaginu.

Vanessa Saliba, smitsjúkdómafræðingur hjá heilbrigðiseftirliti Bretlands segir að fyrir þá einstaklinga sem eru fullbólusettir gegn nænusótt sé áhættan mjög lítil eins og er. „Við vitum hinsvegar að þessi svæði innan London þar sem veiran virðist vera í dreifingu eru með lægsta hlutfall bólusetningar gegn sjúkdóminum,“ sagði Vanessa.

Mænusótt, sem einnig nefnist lömunarveiki, er veirusýking sem berst manna á milli einkum með saurgerlum sem komast í snertingu við munn og meltingarveg. Algengast er að mænan bíði skaða vegna sjúkdómsins sem leiðir þá til lömunar.