Eva Sjöfn Helgadóttir, þingmaður Pírata, segir fréttir um að sautján og sextán ára gamlir einstaklingar hafi sætt einangrun á Íslandi hljóma „vægast sagt undarlega“ í ljósi fyrri svara dómstólaráðherra. Þetta kom fram í ræðu hennar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Þar vísar hún til frétta um að sautján ára drengur hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna stunguárásarinnar á Bankastræti Club í síðustu viku, og að sextán ára gamall drengur hefði sætt varðhaldi í nokkra daga í fíkniefnamáli föður síns. Í síðarnefnda málinu var gæsluvarðhaldsúrskurðurinn felldur úr gildi í Landsrétti.

„Svo ég tali alveg hreint út þá er einangrun barna mun meira íþyngjandi refsing en fangelsisvist. Ég geng út frá því að hæstvirtur ráðherra átti sig á þeim óafturkræfa skaða sem þessi meðferð getur haft á börn. Ég vil því spyrja til hvaða aðgerða dómsmálaráðherra hafi gripið til þess að koma í veg fyrir að brotið sé á börnum því að þau ættu aldrei að þurfa að sæta þessari meðferð?“ spurði Eva

Gert með eins mildum hætti og hægt er

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra svaraði Evu og sagði vöxt í afbrotum ungra karlmanna  vissulega mikið áhyggjuefni.

„Við því verður að bregðast með margvíslegum hætti. Hér er í mörgum tilfellum um óharðnaða unglinga að ræða þótt þeir taki þátt í afbrotum sem einkennast af mikilli hörku og eru dregin áfram af einhverjum hvötum sem hafa leitt af sér þessa alvarlegu atburði.“ sagði Jón sem benti á að við rannsókn sakamála þurfi stundum að einangra fólk í ákveðinn tíma til að gæta rannsóknarhagsmuna.

„Ég fullyrði það að lögregla, löggæsla og fangelsismálayfirvöld beita sér fyrir því að það sé gert með eins mildum hætti og hægt er og tillit tekið til ungs aldurs.“ sagði ráðherra sem bætti við að hann hefði á síðustu misserum rætt við fangelsismálastjóra um nálgun sína í þessum málum, og nefndi að gott væri að bjóða upp á sálfræðiþjónustu og önnur meðferðarúrræði. „Við teljum augljóst að hægt sé að vinna með mörgu af þessu fólki og leiða það til betri vegar.“

„Við því verður að bregðast með margvíslegum hætti.“ sagði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Fréttablaðið/Anton Brink

„En þetta eru börn“

„Hér talar dómsmálaráðherra um ungt fólk og unga einstaklinga en þetta eru börn.“ svaraði Eva sem fullyrti að einstaklingar sem hefðu sætt einangrun væru líklegri til þess að þróa með sér kvíða, þunglyndi, sjálfsvígshugsanir og geðrof, auk þess sem hún hefði líkamleg áhrif.

Þá benti hún á að Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum hefði gefið það út að hvers konar einangrun hjá börnum geti stefnt líkamlegri heilsu og geðheilsu þeirra í hættu.

„Öll einangrun barna er hættuleg.“ segir hún og vísar til þess að nefndin vilji einungis að einangrun gegn börnum sé beitt í algjörum undantekningartilfellum og vari ekki lengur en þrjá daga.

„Horfum fram á mjög alvarlega stöðu“

Jón svaraði Evu aftur. „Við horfum fram á mjög alvarlega stöðu í samfélagi okkar þegar kemur að afbrotahrinu sem við höfum verið að upplifa. Það þarf auðvitað að beita öllum ráðum til að stemma stigu við þeirri þróun sem er að verða.“ sagði hann og ítrekaði að löggæsluyfirvöld og fangelsismálayfirvöld taki á málunum með eins mikilli mildi og hægt væri.

„Þetta úrræði er ekki notað gagnvart ungu fólki nema í algjörum undantekningartilfellum og þegar mikið liggur við og þá er reynt að hafa það í skamman tíma.“ sagði ráðherra og sagði að þrátt fyrir einangrun gætu einstaklingar haft samskipti við starfsmenn og aðra sem að þessum málum koma og því er fylgt eftir.

„Ég held að það sé mikilvægast fyrir okkur í þessu að horfa til þeirra úrræða sem við getum gripið til til þess að stemma stigu við þessari alvarlegu þróun og það er það sem ég mun einbeita mér að.“ sagði Jón að lokum.