Árni Grétar Jóhanns­son, leik­stjóri, við­burðar­stjórnandi, ferða­mála­frömuður og eig­andi skemmi­staðarins Kiki, segist nú í­huga al­var­lega að söðla al­farið um og leita á önnur mið til að afla tekna en vegna CO­VID-19 heims­far­aldursins er inn­koman engin, í annað skiptið á árinu.

Árni lýsir á­standinu í ein­lægri færslu á Face­book sem hann birti í lok júlí. Þar segist hann hafa gert sér fylli­lega grein fyrir því að leik­stjóra­menntunin myndi ekki veita honum mikið starfs­öryggi.

„Af­komu­kvíðni Árni á­kvað því að dreifa öllum sínum eggjum í nokkrar körfur til að vera alltaf öruggur með vinnu; bæta við sig leið­sögu­manna­prófi, litla rútu­prófinu, fara að vinna í brúð­kaupum og við­burðum og síðast en ekki síst kaupa sér bar, ís­lendingar hætta víst seint að drekka. Það virkaði djöfulli vel í nokkur ár, svo kom Fröken Cor­ona og bað mig um að halda fyrir sig á bjórnum sínum.“

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Árni nú vera að skoða hvað hann geti gert í haust. Hann hafi búist við því að leið­sögu­ferðir í haust og í vetur færu fram með eðli­legum hætti, en stór hópur þeirra ferða­manna eru Banda­ríkja­menn og því er ekki víst að þær ferðir gangi eftir.

„Svo maður er að ganga í gegnum annað panic á­stand, því maður hélt að haustið og veturinn væru rock­solid, en núna er maður bara aftur á byrjunar­reit,“ segir Árni.

Árni er sann­kallaður þúsund­þjala­smiður eins og fram hefur komið. „Ég ætlaði að verða gull­tryggður með af­komu og hafa alltaf nóg af verk­efnum en ein­hvern­veginn eru öll eggin í öllum körfunum horfin. Það eru allar körfur tómar. Og það sem er ekki að hjálpa til við stöðuna er að manneskja eins og ég, sem vinn bæði sem laun­þegi og verk­taki, að þá er ekkert grín að ætla að komast á at­vinnu­leysis­bætur, því kerfið býður ekki upp á það, að maður sé annað­hvort,“ segir Árni.

Hann segir að svo virðist vera sem ekki sé gert ráð fyrir því að fólk vinni fjöl­breyttari störf heldur en einungis milli níu til fimm.

Ekki í boði að hafa Kiki opinn

Ó­vissan hlýtur að vera mjög erfið?

„Jú. Og ég meina í þessari fyrri lokun á Kiki, að þá færði ég bara mína krafta al­gjör­lega þangað í að endur­bæta og laga og reyna að gera staðinn eins að­laðandi og hægt væri þegar að við gætum opnað aftur. Svo náðum við að opna aftur við af­éttingu og þá tók smá tími við þar sem maður stóð allar vaktir sjálfir, á bak­við barinn og ætlaði bara að fleyta sér á­fram á því.

En svo erum við bara þannig staður að um leið og tveggja metra reglan er sett á er bara ekki færi á því að vera opin. Við getum ekki tryggt það og viljum heldur ekki vera staður sem verður til þess að upp kemur stórt hóp­smit.“

Í­hugar að söðla al­gjör­lega um

Hann segist nú eyða tíma sínum í að tala við þá sem hann hafi unnið með um hvernig horfurnar séu fyrir frekari verk­efnum, meðal annars við leið­sögnina.

„Ég er núna á fullu í að tala við hina og þessa sem ég hef unnið fyrir sem verk­taki fyrir og þá sem ég hef unnið ýmis ver­ken­fi fyrir, að reyna að fá svör, hverjar horfurnar séu. Það getur náttúru­lega enginn svarað einu né neinu fast en ég er að reyna að kort­leggja horfurnar núna fyrir veturinn og að skoða hvernig vinnu­markaðurinn er núna, hvort ég fari þá bara al­gjör­lega út af þessum brautum sem ég hef verið á og fer hrein­lega bara að gera eitt­hvað allt annað.“

Hann segir að sem betur fer geti flestir ís­lenskir vinn­bu­staðir mætt CO­VID-19 far­aldrinum og að­lagað sig, meðal annars með því að leyfa starfs­fólki sínu að vinna heima.

„En það er líka stór hluti sem er bara í svo­lítið vondum málum. Og sem at­vinnu­rekandi líka, að svara starfs­fólki, maður veit í rauninni ekkert. Og það er mjög erfitt að geta ekki svarað því hve­nær við opnum aftur, eða undir hvaða for­merkjum, eða hversu mikla vinnu við getum skaffað,“ segir Árni.

„Í mínu til­viki er ég svo­lítið beggja vegna borðsins. Ég er laun­þegi hjá sjálfum mér og í mörgum­störfum. Ég er laun­þegi hjá öðrum og ég er vinnu­veitandi. En svo vill maður líka sýna því skilning að stjórn­völd og þrí­eykið hafi ekki svörin á reiðum höndum af því að þau þurfa að spila þetta eftir far­aldrinum.“

Snerti­fletirnir færri hjá ferða­mönnum

Spurður út í skoðanir sínar á á­kvörðunum sem teknar voru um opnun landa­mæra fyrir ferða­mönnum um miðjan júní og þá gagn­rýni sem upp hefur komið, meðal annars frá Gylfa Zoega, prófessor í hag­fræði, segir Árni að hann hafi sam­úð með báðum hliðum.

„Sko, auð­vitað þarf að skoða þetta frá öllum hliðum. Jú, sem bar­eig­andi, að ef landið hefði verið lokað, hefðum við getað verið með fínan rekstur um helgar, þegar Ís­lendingar fara út að djamma. En við hefðum ekki getað verið með opnun í miðri viku eða aðrar opnanir og ekki skaffað nærri jafn mörgum vinnum, því út­lendingarnir keyra nætur­hag­kerfið öðru­vísi. Það er fólkið sem fer fyrr út, eða fer í miðri viku því það er í fríi um miðja viku,“ segir Árni.

Á móti séu mörg störf í húfi í ferða­þjónustunni. Þá bendir Árni á að snerti­fletir ferða­manna séu mun færri en Ís­lendinga og því líkurnar á CO­VID-19 smiti minni frá þeim, líkt og Þór­ólfur sótt­varnar­læknir hefur bent á.

„Hinn al­menni túr­isti sem að kemur bara hingað inn, hann kannski um­gengst ör­fáar mann­eskjur. Hann hefur sam­skipti við mann­eskjuna í lobbíinu á hótelinu, mann­eskjuna í bíla­leigu­bílnum og svo fer hann á sjálfs­af­greiðslu­kassann í Bónus. Á meðan að þeir sem maður þekkir sem hafa verið að koma er­lendis frá, þeir knúsa og kyssa kannski hundrað manns á fyrstu tíu dögunum.“

Breiðdalsvík en ekki Benedorm

Að lokum segist Árni vera á­nægður með það hvernig Ís­lendingar hafa örvað eigið hag­kerfi í sumar með ferða­lögum sínum og kaupum á þjónustu.

„En ég vona bara að þeir haldi því á­fram þó að sumar­fríið sé búið. Það er líka eitt­hvað sem við þurfum í vetur. Og lands­byggðin þarfnast þess að við Reyk­víkingar skreppum í helgar­ferðir norður og austur og hitt og þetta og notum peningana sem við hefðum annars eytt í Glas­gow í að örva og halda uppi hag­kerfinu og þjónustu­stiginu hérna. Ekki fara páska­ferðina til Benedorm. Farðu hana á Breið­dals­vík.“