Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­víkur­borgar, segir viðbúið að leikskólar og leikskóladeildir loki þegar Covid-smit eru jafn mörg og nú er, auk þess sem að margir sem veikjast sýni ekki einkenni sem geri ástandið erfiðara.

„Þetta er búið að koma upp á nokkrum leik­skólum, í flestum til­vikum eru það stakar deildir sem hafa verið lokaðar og settar í sótt­kví. Það eru búin að vera að detta inn stöku smit síðast­liðna daga og við höfum betri mynd af þessu á mánu­daginn. Þetta sem komið hefur upp um helgina er við­búið. Svo er eitt frí­stunda­heimili líka, þar sem eru sumar­nám­skeið, þar sem kom upp smit. Þau börn og starfs­fólk eru í sótt­kví,“ segir Helgi í sam­tali við Frétta­blaðið. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er um að ræða frí­stunda­heimilið Frost­heima í Vestur­bænum.

Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri skóla- og frí­stunda­sviðs Reykja­víkur­borgar.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Í dag greindi RÚV frá því að 88 börn á leik­skólanum Álfta­borg í Safa­mýri væru í sótt­kví, auk starfs­fólks skólans. „Í Álfta­borginni er að­lögun yngstu barnanna í gangi og þá eru flutningar á börnum og starfs­fólki. Svona getur því miður komið upp og er við­búið þegar smitin eru svona mörg. Eins líka þegar að þeir sem veikjast eru ein­kenna­lausir, þá flækist svo­lítið málið til að átta sig ná­kvæm­lega á stöðunni,“ segir Helgi og að á fimmtu­daginn hafi ellefu leik­skóla­deildir í borginni verið í sótt­kví.

„Ég hef ekki ná­kvæmar tölu­legar upp­lýsingar hér og nú, það þarf að taka þetta saman eftir seinustu viku,“ segir Helgi. Þær muni liggja fyrir á mánu­daginn.

Skóla­hald í grunn­skólum er ekki hafið en Helgi segir að stjórn­endur hafi verið hvattir til að skipu­leggja skóla­starf þannig að sem minnst röskun á skóla­starfi verði ef upp koma smit, svo heilu stofnanirnar þurfi ekki að fara í sótt­kví.