Yfir­kjör­stjórnir sáu til þess að inn­sigli voru á at­kvæða­kössum í öllum kjör­dæmum, nema í hinu marg­um­rædda Norð­vestur­kjör­dæmi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslum yfir­kjör­stjórna í kjör­dæmunum sem skilað var inn til lands­kjör­stjórnar í vikunni.

Gengið var lengst í Suð­vestur­kjör­dæmi til að tryggja öryggi at­kvæða­seðla og kjör­gagna eftir talningu. Þar var skipt um lás á geymslunni þar sem kjör­gögn voru geymd og lykill geymdur í vörslu yfir­kjör­stjórnar.

Í skýrslu Norðvesturkjördæmis segir meðal annars að þegar hlé var gert á fundi yfirkjörstjórnar á sunnudagsmorgun voru kjörgögn varðveitt í sal á Hótel Borgarnesi, þar sem talning fór fram. „Við inn­gang­inn í sal­inn eru ör­ygg­is­mynda­vél­ar.“

Ingi Tryggva­son, for­maður yfir­kjör­stjórnar í Norð­vestur­kjör­dæmi, hefur sagt að kjör­gögn hafi aldrei verið inn­sigluð í kjör­dæminu á meðan talningar­fólk fer heim til hvílu. Það sé ein­fald­lega ekki hefð fyrir því.

Ingi vísar því á bug að nokkuð sé at­huga­vert við þessi vinnu­­brögð. „Það hafa aldrei verið nein vanda­­mál í sam­bandi við þetta,“ segir hann.

Í gær var greint frá því að upptökur úr eftirlitsmyndavélum úr talningasal hótelisins séu komnar í réttar hendur rannsóknaraðila.

Þá vildi Hótel Borgarnes ekki tjá sig um myndatökuna, að því er fram kom í skriflegu svari við fyrirspurn Fréttablaðsins í gær.

Öryggis­verðir og hús­verðir á vaktinni

Sam­eigin­legri skýrslu var skilað inn af yfir­kjör­stjórnum í Reykja­víkur­kjör­dæmunum tveimur. Þar kemur fram að at­kvæða­seðlar hafi verið varð­veittir undir um­sjón yfi­kjör­stjórnar að talningu lokinni.

Gögnin hafi fyrst verið geymd í læstum talningar­sal og síðan færð í lokað rými í Ráð­húsi Reykja­víkur með inn­sigli. Öryggis­vörður stóð vaktina fyrir utan talningar­salinn fram að flutningi, að því er segir í skýrslunni.

Þá kemur fram í skýrslu yfir­kjör­stjórnar Norð­austur­kjör­dæmis að kjör­kjössum hafi verið læst í sal með inn­sigli í Brekku­skóla á Akur­eyri. Brekku­skóli hafi svo verið vaktaður af hús­verði og með öryggis­mynda­vélum á meðan hlé var á starf­semi yfir­kjör­stjórnar.