Sterkir vindar á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli við Akureyri skemmdu nýverið stóla í lyftu sem Samherji keypti og hefur lengi verið beðið að tekin verði í notkun. Lyftan stendur í 1.000 metra hæð.

Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, segir að vindarnir hafi komið á hlið stólanna.

„Jú, þetta kemur á óvart,“ segir hann spurður hvort oft hafi ekki verið hvassari vindar en undanfarið.

Átti að vera tilbúin 2018

Uppsetning lyftunnar og starfræksla í svo mikilli hæð á þessu svæði í fjallinu er áskorun. Brynjar Helgi segist ekki sjálfur hafa komið að kaupum á lyftunni en Vinir Hlíðarfjalls hafa séð um uppsetningu. Akureyrarbær keypti lyftuna af Vinum Hlíðarfjalls og hefur Rúv eftir formanni stjórnar Hlíðarfjalls að tafirnar hafi ekki haft mikil fjárhagsleg áhrif á bæinn.  Til stóð að taka lyftuna í notkun 2018.

Þurfum að finna lausnir

„Það eru mjög sterkir vindar sem hafa leikið stólayftuna grátt. Við þurfum að finna lausnir," segir Brynjar Helgi.

Fullsnemmt sé að segja til um hvort lyftan hæfi ekki hæð og veðuraðstæðum í fjallinu.

„Ég held að lyftan verði farsæl. En það er bara búið að vera þannig að allar framkvæmdir taka mikinn tíma, margt sem spilar inn í covid og fleira, við þurfum að finna styrkingar í þetta að utan.“

Enginn afsláttur af öryggi

Brynjar Helgi segir að allar svona framkvæmdir séu gerðar í samstarfi við framleiðendur og aðra.

„Akureyrarbær mun ekki gera neitt nema við séum 110% viss um að öryggi fólks í lyftunni sé tryggt.“

Spurður hvenær forstöðumaðurinn eigi von á að hægt verði að taka lyftuna í notkun, segir forstöðumaðurinn:

„Ég held við náum að keyra lyftuna í vetur.“