Óljóst er hvort kóronaveiran berist nú í auknum mæli í viðkvæmari hópa samanborið við aðra bylgju faraldursins þegar mun færri voru lagðir inn á sjúkrahús.

Þetta kom fram í máli Þórólfar Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi í dag. Þrettán sjúklingar eru nú inniliggjandi á Landspítala með COVID-19 og þar af eru tveir á gjörgæslu í öndunarvél. Þar hefur áhrif að mun fleiri innanlandssmit hafa greinst síðustu vikur en í sumar.

„Það er kannski erfitt að segja það alveg fyrir víst en það er mjög líklegt að það séu viðkvæmir hópar að veikjast. Það þarf ekkert endilega vera fólk með undirliggjandi sjúkdóma, það er margt óþekkt með þessa veiru,“ sagði Þórólfur.

Í því samhengi nefndi hann að dæmi séu um að fólk sem telji sig vera tiltölulega hraust fái alvarlega sýkingu.

„Það er bara þannig að eftir því sem fleiri sýkjast því fleiri fara að koma upp með alvarleg veikindi og við höfum sem betur fer ekki verið að sjá mikið af sýkingum í eldri einstaklingum.“

Vel hafi gengið að vernda íbúa á hjúkrunarheimilum þó þar hafi komið upp einstaka sýkingar að undanförnu.

„Ég tel að það hafi tekist mjög vel að vernda viðkvæma hópa en það er aldrei hægt að gera það alveg hundrað prósent.“

Greint var frá því í gær að fjórir íbúar á Eir hjúkrunarheimili hafi greinst með COVID-19. Hafa þeir verið færðir í einangrun á sérstakri COVID-deild á hjúkrunarheimilinu.