Silja Bára Ómars­dóttir, stjórn­mála­fræðingur, segir ó­víst hvort séu stærri tíðindi frá Banda­ríkjunum, drög að meiri­hluta­á­liti hæsta­réttar landsins sem hugsan­lega mun verða til þess að þungunar­rof verður bannað víðast hvar í landinu, eða þá sú stað­reynd að drögunum hafi verið lekið til fjöl­miðla.

Eins og fram hefur komið gæti brátt dregið veru­lega úr rétti kvenna til þungunar­rofs í Banda­ríkjunum, miðað við frétt Politico sem hefur undir höndum drög að dómsniðurstöðu meirihluta réttarins. Í þeim er meðal annars að finna álit hæstaréttardómarans Samuel Alito á dómi frá árinu 1973, sem kenndur er við Roe gegn Wade, en hann kvað á um að þungarrof stæðist ákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar.

Silja Bára segir að það hafi verið við­búið að hæsti­réttur myndi snúa sér með þessum hætti, eftir að Donald Trump skipaði tvo síðustu dómara við réttinn, enda í­halds­samari dómarar í kjöl­farið með mikinn meiri­hluta í réttinum. Silja Bára segir ljóst að meiri­hluti banda­rísks al­mennings styðji alls ekki slíkar breytingar.

„Þetta snýst ekki bara um þungunar­rof, þetta er hluti af til­raun til fé­lags­legra breytinga sem er líka að grafa undan, til dæmis réttinum til sam­kyn­hneigðra hjóna­banda. Þetta er ekki í sam­ræmi við af­stöðu al­mennings til þessara mála, heldur snýst þetta fyrst og fremst um af­stöðu Repúblikana­flokksins.“

Lekinn án for­dæma

„Ris­a­tíðindin held ég að séu í raun og veru það að eitt­hvað hafi lekið frá hæsta­rétti. Þarna hefur alltaf ríkt rosa­legur trúnaður og dómarar, þó þeir séu ó­sam­mála, kenna sig mikið við bræðra­lag,“ segir Silja Bára. Lekinn geti haft mikil á­hrif á dóm­stólinn til lengri tíma.

„Hitt lá ljóst fyrir, að Repúblikanar vildu sjá þessa breytingu og­ Trump lofaði því sjálfur að hann myndi skipa dómara sem myndu snúa við þessu for­dæmi,“ segir Silja Bára.

Silja Bára segir réttinn velja hvaða mál eru tekin fyrir en í þessu til­viki er um að ræða drög að á­liti dóm­stólsins á máli Dobbs vs. Jack­son Wo­men's Health Organization vegna laga­breytinga í Mississippi ríki frá árinu 2018.

Þær breytingar gera konum ó­heimilt að fara í þungunar­rof eftir fimm­tán vikna með­göngu en á neðri dóms­stigum hafði laga­breytingin verið úr­skurðuð ó­lög­leg á þeim for­sendum að hún færi í bága við eldri dóma sem gera ráð fyrir að konur fái að undir­gangast þungunar­rof þar til á 24. viku með­göngu.

Í­halds­samari ríki til­búin með laga­setningar

Gert er ráð fyrir að loka­á­lit dóm­stólsins verði gefið út í júní. „Þannig að þetta er vinnu­skjal,“ segir Silja Bára um þau gögn sem láku. „Í okkar stjórn­sýslu eru vinnu­skjöl ekki opin­ber gögn því þar geta verið alls­konar hug­myndir sem verið er að viðra og máta,“ segir Silja.

„Það er ekkert rosa­lega langt í að þau eiga að klára þetta en það gæti verið eftir ein­hver sam­ráðs­fundur þar sem meiri­hlutinn og minni­hlutinn mæta með sína ó­líku sýn og hamra út ein­hverja mála­miðlun,“ segir Silja Bára sem tekur fram að vinnu­lag dóm­stólsins hafi alltaf verið ó­ljóst og sveipað á­kveðinni dul­úð.

Silja Bára tekur fram að gangi á­kvörðun réttarins í gegn í ó­breyttri mynd þýði það ekki að þungunar­rof sé þar með bannað í Banda­ríkjunum heldur taki þetta af al­ríkis­vernd á um­ræddum réttindum. Þá getur hvert ríki fyrir sig á­kveðið að gera þungunar­rof ó­lög­legt ef vilji er til þess.

„Fjöldi ríkja hefur nú þegar sett lög sem virkjast við það að Roe verði fellt. Það eru ein­hver tuttugu eða fleiri ríki með þessi svo­kölluðu „trig­ger laws.“ Þannig að ef af þessu verður þá verður þungunar­rof ó­lög­legt að miklu eða öllu leyti í fjölda ríkja,“ segir Silja Bára.

Hún bendir á að það muni þýða að hinir efna­meiri geti ferðast til annarra ríkja til að nálgast slíka þjónustu á meðan hinir efna­litlu verði þvinguð í ó­lög­legar að­gerðir. „Því allar rann­sóknir benda til þess að þungunar­rofum fækkar ekki þó þau séu bönnuð. Þetta er heil­brigðis­þjónusta sem fólk þarf á að halda og þetta er alveg eins á heims­vísu. Fólk mun því lenda í miklum vanda,“ segir Silja.

Ekki víst hver verður loka­niður­staðan

Hversu lík­legt er að dóm­stóllinn muni skila ó­breyttu á­liti í júní?

„Mér finnst lík­legt að niður­staðan, hvort sem hún verður ná­kvæm­lega þessi eða ein­hver önnur, muni þrengja dómar­for­dæmið ef ekki fella það,“ segir Silja Bára og bendir á að þegar hafi verið þrengt að dóma­for­dæminu með á­kveðnum hætti.

En ég veit ekki alveg og er ekki viss hverjum það hagnast að lekinn hafi orðið, hvort það muni verða til þess að í­halds­sömu dómararnir koma lengra inn á miðjuna eða öfugt.“

Að­spurð að því hvort ef eitt­hvað, Demó­kratar geti gert í málinu bendir Silja Bára á að munurinn á Banda­ríkjunum og flestum Evrópu­ríkjum sé sá að þungunar­rofs­rétturinn sé skapaður með dómar­for­dæmi en ekki með lögum.

„Biden sagði strax í dag að Hvíta húsið væri til­búið ef það kæmu lög frá þinginu sem myndu tryggja þennan rétt, til þess að skrifa undir þau. Staðan er ekki sú í þinginu að slík lög myndu fara í gegn en þetta er eitt­hvað sem Demó­kratar geta tekið með sér inn í kosninga­bar­áttuna.“

Hún segir að Demó­kratar muni vonast til þess að málið geti virkjað þeirra kjós­endur í að­draganda milli­þing­kosninga sem eru fram­undan. „Ef þetta birtist í júní eða júli og kosningarnar eru ekki fyrr en í nóvember er hins­vegar alls ekki víst að þetta verði enn brennandi á fólki á þeim tíma því það er erfitt að halda slíkum málum lifandi.“

Umfjöllun bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CBS um málið: