Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur segir of snemmt að segja hvort Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn í sveitarfélögum víða um land muni gjalda fyrir Íslandsbankasöluna og rasísk ummæli formanns Framsóknarflokksins í sveitarstjórnarkosningunum eftir tvær vikur. Stundum hafi landsmálin þó áhrif á úrslit sveitarstjórnarkosninga.

Sem dæmi nefnir Ólafur að árið 2010 hafi hrunið leitt til þess að Besti flokkurinn fékk þriðjung atkvæða í Reykjavík, L-listinn hreinan meirihluta á Akureyri, nýir flokkar í Kópavogi fengu fjórðung atkvæða og í Hafnarfirði hafi kjörsókn orðið sögulega léleg þegar fjórflokkurinn var einn í framboði.

„Þarna var ekki ágreiningur um staðbundin mál heldur notuðu kjósendur sveitarstjórnarkosningarnar til að prumpa á kerfið, láta í ljós andúð á öllum hefðbundnum stjórnmálaflokkum vegna hrunsins,“ segir Ólafur.

Nýjar kannanir hafa mælt hrun í trausti almennings til Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga. Fylgi allra ríkisstjórnarflokkanna er í sögulegu lágmarki samkvæmt könnun Fréttablaðsins. „Munu landsmálin hafa áhrif á niðurstöður sveitarstjórnarkosninga? Mér finnst of snemmt að segja til um það þótt fyrstu kannanir séu dálítið sláandi. Ég vil sjá fleiri kannanir, það er of snemmt að fullyrða um það,“ segir Ólafur.

Að öðru leyti segir Ólafur að kosningamál séu breytileg eftir sveitarfélögum en þó sæti tíðindum að nú sé uppi hugmyndafræðilegur ágreiningur í Reykjavík. Hann snúist um ólíka sýn á uppbyggingu borgarinnar. Annars vegar þétta byggð og áherslu á almenningssamgöngur og vistvænar samgöngur. Hins vegar áherslu á Reykjavík sem áframhaldandi bílaborg.

„Þarna er raunverulegur hugmyndafræðilegur ágreiningur sem talið er að hafi veruleg áhrif,“ segir Ólafur.