Fyrsta inflúensu­smit vetrarins var stað­fest í gær hjá erlendum ferða­manni.

Þór­ólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, kveðst ekki vita af fleiri smitum en segir Ís­lendinga nokkuð vel í stakk búna til að takast á við inflúensuna.

Að sögn Þórólfs byrjar inflúensan þannig að hún greinist á haustin og veturna í ferðamönnum en svo taki hún oft ekki á rás fyrr en eftir áramót.

„Hvort það verði sama uppi á teningnum núna það vitum við svo sem ekki en við vitum það að inflúensan kemur og hún hefur alltaf gert það nema í fyrra. Við þurfum bara að sjá til. Við höfum verið að bólu­setja mjög mikið gegn inflúensunni og ég vona bara að allir nýti sér það sem geta,“ segir hann.

Aðspurður hvort það þurfi að hafa áhyggjur af inflúensunni segir Þórólfur ekki vitað hversu erfið og þung hún verði að hverju sinni og hvort hún valdi alvarlegum veikindum.

„Við vitum ekki ná­kvæm­lega hvernig bólu­efnin munu virka, það er alltaf svo­lítið happa­drætti. Við eigum líka nóg af lyfjum gegn inflúensunni og þessar að­gerðir sem við erum með í gangi ættu líka að hjálpa okkur að tak­marka út­breiðslu inflúensunnar þannig ég vona að það muni skila sér,“ segir Þórólfur.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að inflúensan væri komin til landsins og sagði Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, stjórnandi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, að enn væri nóg til af bóluefni.

Ragnheiður Ósk sagði að undanfarið hefði dregið úr þátttöku í bólusetningu en var bjartsýn á að fólk myndi drífa sig nú þegar fyrsta smitið hefur verið greint.