Til stendur að ljúka vinnu við að útfæra samning um þjónustutengda fjármögnun Landspítala, svokallað DRG-kerfi, í byrjun desember. Óljóst er enn hversu mikið fjármagn fer í sérstakan DRG-sjóð sem gera á fjárveitingar til spítalans sveiganlegri samhliða föstum fjárveitingum. Samkvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands og Landspítala frá því í september verður kerfið tekið í gagnið 1. janúar næstkomandi.

Ólafur Darri Andrason, framkvæmdastjóri fjármála Landspítala, segir að unnið sé að því að klára tæknilegar útfærslur.

„Það eru mjög mörg flækjustig í þessu og við þurfum að vanda vel til verka. Það er ekki gert ráð fyrir að spítalinn verði að fullu fjármagnaður með framleiðslutengdri fjármögnun heldur er starfseminni skipt fjóra flokka eftir eðli starfseminnar. Stærsti flokkurinn sem inniber vel ríflega helming af starfsemi spítalans fellur undir DRG fjármögnun. Við erum núna að yfirfara og fínstilla skiptinguna þarna á milli“ segir hann.

DRG fjármögnunarkerfi gengur út að umreikna þjónustu við sjúklinga í svokallaðar DRG einingar. Þannig er ákveðin meðferð / aðgerð metin á ákveðið margar DRG einingar sem verða grundvöllur að fjármögnun. Sjóður í vörslu Sjúkratrygginga á svo að mæta kostnaðinum ef framleiddar DRG-einingar fara fram úr áætlun skv. samningi aðila.

„Það getur hjálpað okkur með fjármagn ef það verður meira álag á spítalann en ráðgert hafði verið. Það kemur síðan í ljós þegar frumvarp til fjárlaga birtist hversu stór DRG sjóðurinn verður en hann verður ólíklega bylting í rekstri spítalans,“ segir Ólafur Darri.

„Það eru klárlega bæði tækifæri og ógnanir í samningi sem þessum. Ef okkur tekst að framleiða fleiri DRG einingar en samningurinn gerir ráð fyrir þá fáum við viðbótar fjárveitingar en ef við náum ekki af einhverjum ástæðum að framleiða jafn margar DRG-einingar og stefnt var að, þá getur komið til þess að fjárveitingar til spítalans lækki. Því má segja að DRG kerfið auki bæði gagnsæi þjónustunnar og virki líka sem hvati sem tengir betur saman starfsemi spítalans og fjárveitingar en eldra kerfi með föstum fjárveitingum gerði.“