Magnús Gott­freðs­son, yfir­læknir á Land­spítala og prófessor í smit­sjúk­dómum við Há­skóla Ís­lands, segir að hve mikil á­hrif árs­tíðar­sveiflur hafi á veiruna sem veldur CO­VID-19 sjúk­dómnum sé ekki fylli­lega vitað, þó síðasta sumar hafi gefið ýmsar vís­bendingar um það.

Til­efnið eru um­mæli Ölmu Möller, land­læknis, frá því á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag. Þar sagði Alma að veiran hefði legið í láginni síðasta sumar og gerði það eftir árs­tíðum.

„Nú er þetta alveg glæ­ný veira og svo sem kannski ekki hægt að slá ein­hverju al­gjör­lega föstu, en land­læknir er væntan­lega að vísa til þess að sumarið hjá okkur var gott í fyrra og það sama gildir í raun og veru um Evrópu,“ segir Magnús um orð Ölmu.

Þekkt sé að sumar sýkingar hafi árs­tíða­sveiflu. „Þetta virðist gilda um kórónu­veirur al­mennt og það er stað­reynd að ytri þættir eins og hita­stig og raka­stig breytast að ó­gleymdu okkar eigin at­ferli sem er breyti­legt eftir árs­tíðum. Þetta getur allt haft á­hrif á far­alds­fræðina.“

Slíkt sé þó ekki al­gilt en breyti­leiki milli árs­tíða. „Við vitum ekki hversu mikil árs­tíðar­sveiflan er. Við greinum stundum árs­tíða­sveiflu í sjúk­dómum sem getur þá verið þannig að það er hækkun eða lækkun um 10, 20, 30 prósent eftir árs­tíðum en þó ekki þannig að sjúk­dómurinn hverfi al­farið,“ segir Magnús.

Þá séu aðrir sjúk­dómar með enn sterkari árs­tíða­sveiflu, líkt og inflúensa. „Sem er bara ekki til staðar á sumrin hér á norður­hveli jarðar. Hún kemur alltaf á veturna og þá er árs­tíða­sveiflan enn­þá sterkari,“ segir Magnús.

„Hvar ná­kvæm­lega nýja kórónu­veiran mátast inn í þennan breyti­leika er ekki alveg ljóst,“ segir hann. Enginn viti fyrir víst hvernig veiran muni ná­kvæm­lega haga sér í sumar, en eðli­legt sé að líta til þess sem við þekkjum, sem er síðasta sumar.

„Það mun svo klár­lega hafa tals­vert að segja hvernig við högum okkur, því það erum jú við sem breiðum veiruna út en jafn­framt mun þátt­taka í bólu­setningum hafa mikið um mögu­lega út­breiðslu að segja.“