Vladimír Pútín Rússlandsforseti hrósaði varnarmálaráðherra sínum, Sergej Shoígú, fyrir góðan árangur rússneska hersins í austurhluta Úkraínu í gær. Á fundi sem sýndur var í beinni útsendingu á rússneskum ríkissjónvarpsstöðvum hrósaði Pútín ráðherranum sérstaklega fyrir að hafa tekið yfir hafnarborgina Maríupol, við Asovshaf. Innrásarher Rússlands hefur setið um borgina í rúmlega tvo mánuði.

Sigur Rússa í Maríupol virðist þó ekki vera endanlega í höfn. Úkraínskt herlið er enn í borginni og heldur til í stálverksmiðju í borginni, ásamt óþekktum fjölda af óbreyttum borgurum. Fyrir skömmu skipaði Pútín herliði sínu að gera ekki árás á verksmiðjuna og kallaði eftir því að svæðið yrði girt af. Þá var haft eftir Joe Biden Bandaríkjaforseta að árangur Rússa í Maríupol væri óljós. Ummælin komu skömmu eftir að yfirvöld í Bandaríkjunum tilkynntu um stórar viðbótar stuðningsaðgerðir til Úkraínu.

Viðtalið hefur verið í stöðugri endursýningu í rússnesku sjónvarpi og er talið vera liður í að telja íbúum þar í landi trú um að innrásin gangi vel fyrir sig. Að undanförnu hafa sérfræðingar og blaðamenn víða orðið varir við vísbendingar um að afstaða almennra rússneskra ríkisborgara til innrásarinnar hafi versnað. Í gær sagði forstjóri rússneska olíurisans Lukoil af sér og telja margir það hafa verið gert í mótmælaskyni við innrás Pútíns. Fréttamiðillinn Reuters greindi frá því að stjórn Lukoil hefði fyrir nokkrum vikum sent frá sér tilkynningu þar sem kallað var eftir því að Rússland byndi enda á stríð sitt í Úkraínu.