Ólíver, sonur Sig­ríðar Elínar Ás­munds­dóttur, sem hætti í skólanum sínum eftir hrottalegt einelti, hefur nú fengið ótalmörg hvatningarskilaboð frá landsþekktum einstaklingum og vinabeiðnir frá strákahópum í hverfinu.

Sig­ríður Elín lýsti á­takan­legu ein­elti sem tíu ára gamall sonur hennar hefur orðið fyrir í skólanum sínum í Face­book færslu sem vakið hefur mikla at­hygli. Í færslunni lýsir Sig­ríður því meðal annars hvernig hún hefur oft þurft að sækja son sinn grátandi í skólann. Oft hafi hún auk þess þurft að sækja hann blóðugan í skólann eftir hnefa­högg sem hann hefur fengið í and­litið.

Eftir að Sigríður Elín birti færsluna hafa fjölmargir sett í samband við fjölskylduna. Til að mynda mætti hópur ungra drengja frá Flataskóla heim til Ólívers í dag til að biðja hann um að vera vinur þeirra. Sigríður segir fleiri hafa sett sig í samband við Ólíver og fjölskylduna, þar á meðal Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmaður í handbolta og Ævar Vísindamaður.

„Við Ólíver erum klökk og eiginlega orðlaus yfir viðbrögðunum, öllum einlægu og fallegu skilaboðunum frá ykkur, símtölunum, hlýjunni og stuðningnum. Okkur sýnist þjóðin vera sammála okkur um að einelti má aldrei líðast og við eigum að hjálpast að, öll sem eitt, við að uppræta það. Við EIGUM að skipta okkur af þegar við verðum vitni að einelti, sýna stuðning, ást og umhyggju því einelti er dauðans alvara,“ skrifar Sigríður í færslu á Facebook.

Hún segir Óliver hafa brosið hringinn eftir símtölin og skilaboðin. Fjölskyldan þakkar öllum þeim sem sendu Ólíver skilaboð og þakkar Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sérstaklega fyrir að taka fastar á eineltismálum.