Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra segir það ekki vera á dagskrá ríkisstjórnarinnar að heimila olíuleit eða olíuvinnslu á Íslandi. Kom þetta fram í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins í kjölfar birtingar nýrrar stöðuskýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í dag.

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, kallaði skýrsluna „rauða viðvörun“ fyrir mannkynið og lét þau orð falla að „ríkjum [bæri] að hætta allri nýrri olíuleit og vinnslu“. Sagði hann að ferfalda þyrfti sólar- og vindorkuvinnslu og þrefalda fjárfestingar í endurnýjanlegri orku frá árinu 2030 til þess að hægt yrði að ná nettólosun gróðurhúsalofttegunda niður í ekkert um miðja öldina.

„Það er ekki á dagskrá ríkisstjórnar að leyfa olíuleit eða olíuvinnslu hérlendis,“ sagði Guðmundur Ingi í svari sínu. „Ég tek undir hvert orð aðalritara Sameinuðu þjóðanna, þ.m.t. orð hans um olíuleit- og vinnslu og hvet ríki heims til frekari aðgerða og skuldbindinga. Ráðuneytið mun taka þessa skýrslu líkt og fyrri skýrslur IPCC inn í stefnumótunarvinnu í loftslagsmálum.“

Í svari við sömu fyrirspurn sagði Ásta Sigrún Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, að „engin olíuleitarleyfi [væru] í ferli eða á sjóndeildarhringnum og engin formleg stefna [væri] til um olíuleit.“ Var jafnframt bent á að nýlegri orkustefnu væri kveðið á um að Ísland yrði óháð jarðefnaeldsneyti

Ríkisstjórn Grænlands stöðvaði formlega gas- og olíuleit á grænlenskum miðum vegna umhverfissjónarmiða í síðasta mánuði.

Fréttin hefur verið uppfærð.