Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það sé ekki von á því að fellibylurinn Martin bregði sér á land við strendur Íslands.

Martin mældist sem fyrsta stigs fellibylur en það mun fjara undan honum áður en búist er við að honum bregði fyrir á Bretlandseyjum um helgina.

„Það eru mjög litlar líkur á því að hann komi hingað. Allar spár eru sammála um að hann verði hérna fyrir sunnan og nái ekki hingað. Kannski smá strengur af jaðri hans en ekkert af viti,“ segir Eiríkur, aðspurður hvort Martin muni koma til landsins.

„Hann verður ekki fellibylur ef hann kemur til Íslands. Það verða 13-18 metrar syðst á landinu á morgun, sem má rekja til Martins, en ekkert meira en það.“