Ekki eru líkur á að Alþingi verði kallað saman fyrr en eftir að kærufrestur vegna þingkosninganna rennur út, en hann er fjórar vikur. Þetta segir Willum Þór Þórsson, starfandi forseti Alþingis. Þingflokkar hafa nú tilnefnt þá þingmenn sem sitja munu í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis.

Í nefndinni munu sitja Birgir Ármannsson, Vilhjálmur Árnason og Diljá Mist Einarsdóttir fyrir Sjálfstæðisflokk, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir fyrir Framsóknarflokk, Svandís Svavarsdóttir fyrir Vinstri græn, Björn Leví Gunnarsson fyrir Pírata, Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrir Samfylkinguna og Inga Sæland fyrir Flokk fólksins. Þessi skipun kann að hafa vandræði í för með sér vegna sjónarmiða um kynjahlutföll, þar sem sex konur sitja í nefndinni en aðeins þrír karlar.

Því er ólíklegt að það skýrist nærri því strax hvaða þingmenn munu skipa Alþingi þetta kjörtímabil. Þótt Landskjörstjórn hafi í gær gefið út kjörbréf fyrir þingmenn, þar á meðal á grundvelli seinni talningar í Norðvesturkjördæmi, mun Alþingi hafa síðasta orðið.

Þingmenn vilja ekki tjá sig opinberlega um hvaða leið þeir muni styðja þegar kemur til kasta þingsins, en samkvæmt samtölum blaðsins hafa fæstir gert upp sinn hug. Því stefnir jafnvel í átakaafgreiðslu og jafnvel þvert á flokkslínur.

Sumir þeirra þingmanna sem voru inni eftir fyrri talningu en duttu út eftir þá síðari, lýsa ömurlegri líðan. Einn þeirra skráði sig atvinnulausan í vikunni.

Í gær barst kæra til þingsins frá Magnúsi Davíð Norðdahl, oddvita Pírata í NV-kjördæmi, þar sem hann krefst þess að kosið verði aftur í NV-kjördæmi. Þá barst einnig kæra frá Guðmundi Gunnarssyni, oddvita Viðreisnar. Karl Gauti Hjaltason, Miðflokki, hyggst einnig leggja fram kæru til þingsins, en hann hefur þegar kært talningu í Norðvesturkjördæmi til lögreglu.

„Ég kæri vegna þess að ég tel að við kjósendur í Norðvesturkjördæmi getum ekki treyst að þarna hafi farið fram heiðarlegar og sanngjarnar kosningar, á því leikur vafi,“ sagði Magnús Davíð við þinghúsið í gær, eftir að hann skilaði af sér kærunni til þingsins. Kæran fór einnig til dómsmálaráðuneytisins. Í kærunni er meðal annars nefnt að kjörgögn hafi verið eftirlitslaus og óinnsigluð í um fjórar klukkustundir. Þetta feli í sér hættu á að átt hafi verið við atkvæði og þar með ákvarðanir kjósenda og gæti því hafa haft áhrif á úrslit kosninganna.

Þeir ágallar sem helst hafa verið nefndir við nýja kosningu fyrir vestan eru að allt gæti riðlast ef aftur yrði kosið í einu kjördæmi. Magnús Davíð Norðdahl segir að í fyrsta lagi hafi Alþingi enga heimild til að taka við málinu frá landskjörstjórn og byggja á einhverri annarri talningu en þeirri sem landskjörstjórn tók upphaflega mið af. Í öðru lagi væri einkennilegt ef menn ætluðu að hengja sig á einhverja eina talningu í meingölluðu ferli, út frá hagsmunum. „Ef menn ætla að standa með lýðræði og gagnsæi verður að endurtaka þetta ferli í heild sinni.“

Lögreglurannsókn stendur yfir á framkvæmd talningar og meðferð kjörgagna í Borgarnesi. Kærandinn, Karl Gauti Hjaltason, segir að rannsóknin ætti að vera stak í málinu. Hann er ekki bjartsýnn á niðurstöðu en hefur þó ekki lagt niður vopn og segist muni senda kæru til kjörbréfanefndar. Hann vonast til að þá verði lögreglurannsóknin komin eitthvað áleiðis. Afleitt sé ef síðar komi á daginn að þær ákvarðanir sem verið er að taka nú séu rangar.