Samkvæmt úkraínska varnarmálaráðuneytinu eru 127 þúsund rússneskir hermenn við landamæri ríkjanna. Meirihlutinn úr landhernum en 21 þúsund úr flugher og flota. Skriðdrekar, sprengjuvörpur og margs konar stríðstól eru einnig til staðar. Þá segja Úkraínumenn að Rússar reyni nú að koma landinu úr jafnvægi, með árásum á tækniþjónustu og innviði ríkisins, með það fyrir augum að gera innrás.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist á blaðamannafundi í gær gera ráð fyrir innrás á næstunni. Af hvaða stærðargráðu hún yrði væri hins vegar óljóst. Einnig að innrás yrði mætt af hörku af hálfu vesturveldanna.

Langt er síðan jafn mikil spenna hefur myndast milli stórveldanna og hættan á beinum hernaðarátökum er raunveruleg. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segist fylgjast náið með atburðarásinni og að hernaðaruppbygging Rússa við landamærin sé áhyggjuefni. Henni finnst ekki viðeigandi að spá fyrir um hvort stríð brjótist út.

„Ég vona að takist að afstýra átökum og ég tel að sú von sé ekki óraunsæ þótt hitt sé sannarlega ekki óhugsandi, því miður,“ segir hún.

Þórdís segir mikilvægustu hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi felast í því að virðing sé borin fyrir alþjóðalögum. Þar skipti mestu að landamæri og lögsaga ríkja séu í friði frá ágangi og ásælni. „Þar með blasir við að Ísland tekur einarða afstöðu gegn tilburðum og aðgerðum sem ógna þessum grundvallaratriðum,“ segir Þórdís.

Úkraína er ekki í Atlantshafsbandalaginu, NATO, en bandalagið hefur þó tekið skýra afstöðu með landinu. Þá skiptir einnig miklu að NATO-þjóðum eins og Pólverjum og Litáum finnst sér ógnað vegna framgöngu Rússa.

Á blaðamannafundinum sagði Biden NATO-þjóðirnar ekki fullkomlega sammála um hvaða leið væri best að fara til að taka á stöðunni sem upp er komin. Ef Rússar myndu fara með herlið sitt yfir landamærin myndi það breytast og bandalagsríkin beita sé hratt og örugglega.

„Það er ákaflega ólíklegt að Ísland blandist með beinum ætti inn í átök, en við styðjum eins og okkur er mögulegt við vina- og bandalagsríki í samræmi við skuldbindingar okkar og þjóðaröryggisstefnu,“ segir Þórdís spurð um hversu líklegt sé að Ísland flækist inn í hugsanleg hernaðarátök.

„Fram hefur komið að hernaðarlegur stuðningur við Úkraínu muni felast í búnaði og þjálfun. Enginn vafi er á að gripið verður til þvingunaraðgerða ef brot Rússlands gegn landamærahelgi Úkraínu færast í aukana. Landvinningastríð og brot gegn landamærum og lögsögu ríkja eru ólíðandi í alþjóðlegu samhengi og væru þvingunaraðgerðir fullkomlega réttlætanleg viðbrögð við þeim,“ segir Þórdís utanríkisráðherra.