Tekin verður á­kvörðun í birtingu um hvort að fram verði haldið með björgun báta í Flat­eyrar­höfn í dag. Þetta segir Guð­mundur Magnús Kristjáns­son, hafnar­stjóri hafna Ísa­fjarðar­bæjar, í sam­tali við Frétta­blaðið. Vegna veðurs telji hann það þó vera ólíklegt. „Eins og veðrið er núna þá er ekki vinnu­veður,“ segir Guð­mundur. Appel­sínu­gul veður­við­vörun hefur verið í gildi fyrir Vest­firði frá í gær­kvöldi.

Þá segir hann einnig vera ó­vissa um hvort að Flat­eyrar­vegur haldist opinn, en í­trekar að staðan verði metin þegar birtir til.

Björgunar­að­gerðir hafa gengið á­gæt­lega en í gær náðist báturinn Blossi á land og þá náðist að festa bátinn Eið, sem hefur legið á hvolfi í höfninni, við bryggju. Ekki hefur þó náðst að koma Eið á réttan kjöl, en komið hefur verið í veg fyrir að hann sé á ferð innan hafnarinnar.

Leysa þau verk­efni sem fyrir liggja

Guð­mundur hefur ekki ná­kvæma tölu á því hversu margir hafa starfað við björgunina, en auk fyrir­tækisins sem starfað hefur við björgunina hefur á­höfn varð­skipsins Þórs og björgunar­sveitar­fólk hjálpað til við björgunina. Hann segir að allir sem geti hafi hjálpað til.

„Þegar það þarf að gera eitt­hvað þá bara fara menn í það og leysa þau verk­efni sem fyrir liggja.“

Engin olía farið í höfnina

Enn hefur ekki lekið olía úr bátunum og segir Guð­mundur að hann sé bjart­sýnn á að svo verði ekki. „Það er helst þegar Eið verður velt við og komið á réttan kjöl, það er helsta hættan,“ segir Guð­mundur. Björgunaraðilar eru viðbúnir ef olía fari í sjóinn.

Á staðnum eru full­trúar frá Um­hverfis­stofnun sem munu fylgjast með því hvort að ein­hver mengun verði. Þá er Olíu­dreifing á staðnum með mengunar­varnar­búnað, en Guð­mundur segir að fyrir­tækið eigi besta búnaðinn til að koma í veg fyrir olíu­mengun. Þá eiga Ísa­fjarðar­hafnir flot­girðingu sem hægt er að nota til þess að koma í veg fyrir að olía dreifi sér ef hún lendir í sjónum.