Til stendur að bjóða öllum þeim sem fengu einn skammt af Jans­sen, og eru ekki með sögu um Co­vid, örvunar­skammt af bólu­efni Pfizer eða Moderna en í heildina fengu um 53 þúsund manns Jans­sen. Í vikunni var byrjað að boða skóla­starfs­fólk í örvunar­skammt og síðar í mánuðinum munu aðrir fá boð.

Þar að auki verður lík­lega byrjað að bólu­setja börn á aldrinum 12 til 15 ára síðar í mánuðinum með bólu­efnum Pfizer og Moderna en þar er um að ræða milli 15 til 20 þúsund börn að sögn Kamillu Sig­ríðar Jósefs­dóttur, stað­gengli sótt­varna­læknis. Það eru því stórir bólu­setningar­dagar fram undan.

„Ég er ekki með alveg 100 prósent töluna en þetta eru kannski 80 þúsund, eða eitt­hvað af þeirri stærðar­gráðu, sem að eru að fá fullnaðar­bólu­setningu núna eða að hefja bólu­setningu sem hafa ekki haft tæki­færi til þess,“ segir Kamilla í sam­tali við Frétta­blaðið.

Þá er einnig til skoðunar að gefa þeim sem voru bólu­settir með öðrum bólu­efnum þriðja skammtinn til örvunar en það er enn í undir­búningi. „Við eigum ekki nóg bólu­efni til þess að bólu­setja alla, sem eru búnir að fá tvo skammta, af þriðja skammtinum, þannig við þurfum að for­gangs­raða í það,“ segir Kamilla.

Viðkvæmir hópar í forgangi

Verið er að skoða hvort að allir sem hafa verið bólu­settir, óháð því hvort þeir séu í á­hættu­hópi eða ekki, þurfi á örvunar­skammt að halda eða hvort að bíða ætti þar til það kemur sér­stakt bólu­efni gegn Delta-af­brigðinu. Að sögn Kamillu er ólíklegt eins og staðan er í dag að öllum verði boðið örvunarskammtur.

„Fyrir hópana sem við erum hræddust um, fyrir hópana sem eru elstir, fyrir þá sem eru með mikla ó­næmis­bælingu, fyrir þá sem að eru með á­kveðna sjúk­dóma eða eru í störfum þar sem er aukin hætta á smiti, þetta eru hóparnir sem við erum að horfa á að reyna að koma sem fyrst í örvunar­skammta,“ segir Kamilla.

Hún bætir við að lík­lega verði þeir sem hafa þegið líf­færi fyrstir í röðinni þar sem fyrir­liggjandi gögn styðja við það og að þeir verði bólu­settir í septem­ber. Síðar í ágúst mun síðan koma í ljós hvernig fram­boð af bólu­efnum verður í septem­ber og þá verði hægt að segja frekar til um hve­nær aðrir í við­kvæmum hópum fá sinn skammt.

„Við getum í rauninni ekki al­menni­lega vitað hvað við eigum mikið af skömmtum til að nota í á­kveðin verk­efni fyrr en það grynnkar að­eins á þeim verk­efnum sem við stöndum frammi fyrir núna.“