Aðeins helmingur þeirra sem ætla að kjósa Samfylkinguna í kosningunum á morgun vill að Logi Einarsson, formaður flokksins, verði næsti forsætisráðherra.

Þetta sýna niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Maskínu sem gerð var 15. til 22. september 2021. Svarendur voru 6.076.Þrátt fyrir að flokkurinn sé næststærstur allra flokka sem bjóða fram vilja aðeins 7,7 prósent sjá Loga í forsæti næstu ríkisstjórnar.

Eru Sigurður Ingi Jóhannsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir öll vinsælli forsætisráðherraefni en Logi.

Málum er öfugt farið gagnvart Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þótt flokkur hennar mælist aðeins með um tíu prósenta fylgi vilja langflestir aðspurðra, 36 prósent, að Katrín verði áfram forsætisráðherra. Næstflestir vilja Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, eða 13,3 prósent.