Guð­jóni Skarp­héðins­syni voru boðnar 100 milljónir króna í bætur, eftir að hann var sýknaður í Guð­mundar- og Geir­finns­málunum svo­nefndu. Sátta­um­leitunum um bætur er lýst með ó­líkum hætti í stefnu Guð­jóns annars vegar og greinar­gerð ríkisins hins vegar. Ríkið hefur farið fram á að verða sýknað af kröfum Guð­jóns og að hann greiði allan máls­kostnað á meðan Guð­jón fer fram á rúman milljarð í bætur.

Óumdeild bótaskylda

Sátta­um­leitanirnar voru leiddar af sátta­nefnd sem skipuð var af Katrínu Jakobs­dóttur í kjöl­far sýknu­dóms Hæsta­réttar í Guð­mundar- og Geir­finns­málunum í októ­ber 2018. Krist­rún Heimis­dóttir fór fyrir nefndinni og hafði sátta­nefndin úr um 600 milljónum að spila, en mark­mið nefndarinnar var að leita sam­eigin­legs sátta­grund­vallar í málinu.

Um­leitununum er lýst ítar­lega í stefnu Guð­jóns, sem unnin er af Ragnari Aðal­steins­syni, lög­manni hans. Þar vísar Ragnar meðal annars til þess að ó­um­deilt sé að Guð­jón eigi rétt á skaða­bótum úr hendi ríkisins, og að krafa hans njóti þar af leiðandi lög­verndar.

Ragnar sendi sátta­nefndinni bréf rúmum mánuði eftir að nefndin var skipuð, eða 22. desember 2018, þar sem Guð­jón hafði enn ekki verið boðaður til við­ræðna. Í bréfinu gerði Ragnar grein fyrir réttar­stöðu Guð­jóns og setti fram bóta­kröfur; rúman milljarð í miska­bætur og um 400 milljónir í bætur fyrir missi at­vinnu­tekna. Hann segir ekkert efnis­legt svar hafa borist við bréfinu, að­eins að nefndin muni kynna „hug­myndir að sam­eigin­legum sátta­grund­velli um sam­komu­lags­bætur.

Tveir sátta­fundir voru haldnir, þann 22. janúar og 28. mars. Sátta­nefndin kynnti hug­myndir og til­boð um bóta­fjár­hæð á síðari fundinum, sem Ragnar sagði með öllu ó­full­nægjandi og í engu sam­ræmi við dóma­for­dæmi.

„Ríkis­stjórnin ætlar sér að komast upp með dóms­morðin án nokkurra af­leiðinga fyrir ríkið og af full­komnu á­byrgðar­leysi," segir Ragnar Aðalsteinsson.
Fréttablaðið/Eyþór

Engin svör þrátt fyrir ítrekanir

„Í fram­haldi af hinum árangurs­lausa fundi átti settur ríkis­lög­maður sím­töl við lög­mann stefnanda og einn fund og voru nefndar nokkuð hærri tölur en á fundi sátta­nefndar 28. mars eða rúm­lega 100 milljónir króna. Mátti ráða af þessum sím­tölum að til skipta milli stefnanda [Guð­jóns] og annarra sýknuðu svo og að­stand­enda væri á­kveðin tak­mörkuð fjár­hæð frá stefnda og skipti­grund­völlurinn væri daga­fjöldi frelsis­sviptingar,“ segir í stefnunni.

Ragnar sendi annað bréf til ríkis­lög­manns þann 6. júní þar sem hann krafðist svara við bréfi sínu frá 22. desember. Svör fengust ekki, né sam­komu­lag, og því „varð ekki hjá máls­sókn komist til að fá ís­lenska ríkið dæmt til að greiða stefnanda hæfi­legar skaða­bætur,“ að því er Ragnar segir í stefnunni.

Málsókn jafngildi viðræðuslitum

Í greinar­gerð ríkisins segir hins vegar að fljót­lega í ferlinu hafi komið fram háar kröfur sem ekki hafi getað orðið grund­völlur við­ræðna eða sáttar­gjörðar.

„Í nefndu ferli fór fram könnun á því hvort nefndir máls­aðilar væru til­búnir til að lækka fram­komnar fjár­hæðir, og þá hvað mikið. Þegar til kom voru ekki taldar vera for­sendur fyrir frekari könnun á slíkri lausn. Að kröfu stefnanda yrðu mál hans út­kljáð fyrir dómi.“

Ragnar er afar harð­orður í garð ríkis­stjórnarinnar og af­stöðu hennar í greinar­gerðinni, og sakaði hana í Fréttablaðinu í dag um algjört ábyrgðarleysi.

„Í kröfu­gerðinni og rök­semdum felst af­staða ríkis­stjórnarinnar, sem gefur lög­manni sínum fyrir­mæli, til bóta­krafna þeirra sem sýknaðir voru. Þeir eigi ekki neinn rétt á skaða­bótum úr hendi ríkisins fyrir þá mein­gerð sem ríkið olli þeim með refsi­dómum sem eru í­gildi dóms­morða,“ sagði Ragnar og bætti við:

„Ríkis­stjórnin ætlar sér að komast upp með dóms­morðin án nokkurra af­leiðinga fyrir ríkið og af full­komnu á­byrgðar­leysi.“