Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, óskar eftir fundi með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra til að ræða stöðu hælisleitenda í ljósi þess að barnshafandi konu var vísað úr landi í nótt með tveggja ára barni sínu. Þetta kemur fram í tilkynningu sem biskupinn sendi á fjölmiðla rétt í þessu.

Albanskri fjöl­skyldu, þar á meðal tveggja ára gömlu barni og konu sem gengin er átta mánuði, var í morgun vísað frá landi gegn ráðleggingum lækna og ljósmæðra á Landspítalanum. Málið hefur vakið mikla athygli og óhug meðal Íslendinga og hafa ótalmargir fordæmt brottvísunina.

Samtökin No Bor­ders greindu fyrst frá þessu á Facebook í gær­kvöldi og færðu fregnir af stöðunni þar til fjölskyldan var fjarlægð. Samtökin birtu vottorð lækna þar sem kom fram að konan ætti erfitt með langt flug. Útlendingastofnun sagði fyrr í morgun að ekkert hafi komið fram í vottorðinu um að öryggi hennar yrði stefnt í hættu með flutningum.

Mannréttindabrot og ólíðandi verknaður

„Það er ólíðandi verknaður að senda barnshafandi konu burt í óvissu og örbyrgð. Það er mannréttindabrot og gengur þvert á skilyrðislausa kærleiksskyldu kristinna manna,“ segir biskup.

Agnes hefur einnig óskað eftir því að prestur innflytjenda, séra Toshiki Toma, ásamt séra Ásu Laufey Sæmundsdóttir og séra Evu Björk Valdimarsdóttur, sem séð hafa um þjónustu við hælisleitendur, fylgi málinu eftir.