Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins, segir undanfara alvarlegs orkuskorts á Íslandi vera brýnt vandamál sem þurfi að leysa.

Þingmaðurinn benti á í ræðu sinni á Alþingi í dag að fiskmjölsverksmiðjur hafi neyðst til að nota óákjósanlegan orkugjafa eins og olíu í staðinn fyrir hreina raforku.

„Slík staða er eitthvað sem við eigum ekki að þurfa að horfast í augu við sem íslensk þjóð með allar okkar endurnýjanlegu orkuauðlindir,“ sagði Ingibjörg í ræðu sinni um störf þingsins á þingfundi í dag.

Orkunotkun hér á landi hefur vaxið mikið á síðustu áratugum og met í raforkunotkun eru slegin í hverri viku. Sömuleiðis berast af og til fréttir um rafmagnsleysi vegna álags á kerfinu. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá var staða miðlunar­lóna Lands­virkjunar síðasta sumar í lægri kantinum miðað við árs­tíma. Kalt og þurrt veður í maí gerði að verkum að bráðnun íss og snjós er síðar á ferðinni en vana­lega.

„Í kjölfarið er komin nú upp sú staða sem kemur líklega mörgum að óvörum. Það er raforkuskortur. Þetta var ekki endilega ófyrirséð en fréttirnar komu þó mörgum á óvart,“ sagði Ingibjörg sem tók fram að henni þætti ánægjulegt að sjá áherslur um sjálfbærni á Íslandi með grænni orkuframleiðslu og grænum fjárfestingum.

„Tryggja þarf næga orku bæði fyrir heimilin og atvinnulífið. Olía er ekki ákjósanlegur kostur. Það er skref aftur á bak og það vill enginn.“