Óli Halldórsson, oddviti Vinstri grænna í Norðurþingi, mun leiða framboðslista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningum 25. september. Í öðru sæti á listanum er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður.
Þetta var samþykkt nú um helgina eftir rafrænt forval hjá Vinstri grænum í Norðausturkjördæmi. Valið var í efstu fimm sæti á framboðslista hreyfingarinnar í alþingiskosningunum sem fram fara í haust.
Niðurstaða forvalsins var eftirfarandi:
- sæti Óli Halldórsson með 304 atkvæði í 1. sæti
- sæti Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir með 293 atkvæði í 1.-2. sætið
- sæti Jódís Skúladóttir með 297 atkvæði í 1.-3. sæti
- sæti Kári Gautason með 337 atkvæði í 1.-4. sæti
- sæti Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir með 322 atkvæði í 1.-5. sæti
Í tilkynningu frá Vinstri grænum kemur fram að tólf hafi verið í framboði, á kjörskrá hafi verið 1042 einstaklingar, atkvæði greidd voru 648 og kosningaþátttaka því 62 prósent. Auðir seðlar og ógildir voru núll.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fyrrverandi fjármálaráðherra og lengst af formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs tilkynnti á fundi kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis í lok október í fyrra að hann hyggðist ekki gefa kost á sér til að leiða framboð VG.
