Óli Halldórsson, oddviti Vinstri grænna í Norðurþingi, mun leiða fram­boðs­lista Vinstri hreyf­ing­ar­innar græns fram­boðs í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningum 25. september. Í öðru sæti á listanum er Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður.

Þetta var samþykkt nú um helgina eftir rafrænt forval hjá Vinstri grænum í Norðausturkjördæmi. Valið var í efstu fimm sæti á framboðslista hreyfingarinnar í alþingiskosningunum sem fram fara í haust. 

Niðurstaða forvalsins var eftirfarandi:

  1. sæti Óli Halldórsson með 304 atkvæði í 1. sæti
  2. sæti Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir með 293 atkvæði í 1.-2. sætið
  3. sæti Jódís Skúladóttir með 297 atkvæði í 1.-3. sæti
  4. sæti Kári Gautason með 337 atkvæði í 1.-4. sæti
  5. sæti Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir með 322 atkvæði í 1.-5. sæti

Í tilkynningu frá Vinstri grænum kemur fram að tólf hafi verið í framboði, á kjörskrá hafi verið 1042 einstaklingar, atkvæði greidd voru 648 og kosningaþátttaka því 62 prósent. Auðir seðlar og ógildir voru núll.

Stein­grímur J. Sig­fús­son, for­seti Al­þingis, fyrr­verandi fjár­mála­ráð­herra og lengst af for­maður Vinstri hreyfingarinnar græns fram­boðs tilkynnti á fundi kjördæmisráðs Norðausturkjördæmis í lok október í fyrra að hann hyggðist ekki gefa kost á sér til að leiða fram­boð VG.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og fyrrverandi formaður Vinstri grænna, tilkynnti í fyrra að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í þingkosningunum.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari