Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir öðru sæti á lista í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi sem fram fer 10.-12. júní næstkomandi vegna komandi þingkosninga. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Hann hefur verið þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi frá 2016 en var áður varaþingmaður. Óli Björn hefur verið formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 2017 og hefur setið í atvinnuveganefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Óli Björn hefur skrifað fjölda blaðagreina á síðustu árum um hugmyndafræði, þjóðmál, viðskipti og efnahagsmál, gefið út fimm bækur auk þess að halda úti hlaðvarpsþættinum; Óli Björn – Alltaf til hægri.