Sex þing­menn Sjálf­stæðis­flokks hafa lagt fram frum­varp að taka RÚV af aug­lýsinga­markaði. Fyrsti flutnings­maður þess er Óli Björn Kára­son, sem lagði fram sam­bæri­legt frum­varp í vor á­samt þá­verandi þing­flokks­fé­laga sínum Brynjari Níels­syni.

Mál­efni fjöl­miðla voru meðal um­deildra mála innan ríkis­stjórnarinnar á síðasta kjör­tíma­bili. Mikið var deilt um frum­varp Lilju Al­freðs­dóttur þá­verandi mennta­mála­ráð­herra um styrki til einka­rekinna miðla, einkum meðal stjórnar­þing­manna.

Í grein sem birtist í Morgun­blaðinu um miðjan októ­ber, er stjórnar­myndunar­við­ræður Fram­sóknar, Sjálf­stæðis­flokks og Vinstri grænna stóðu yfir, sagði Óli Björn að ekki mætti gleyma fjöl­miðlum í við­ræðunum. Styrkja þyrfti stöðu sjálf­stæðrar fjöl­miðlunar, með því að taka RÚV af aug­lýsinga­markaði og lækka skatta á fjöl­miðla.

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra sagði um svipað leyti að slíkt hefði ekki borið á góma í við­ræðunum og endur­speglast það í stjórnar­sátt­málanum þar sem ekki er einu orði minnst á fjöl­miðla eða RÚV.

Sam­kvæmt frum­varpinu yrði RÚV ó­heimilt að markaðs­setja, kynna, selja eða birta við­skipta­boð, hvort sem er í út­varpi, sjón­varpi eða á vef. Sömu­leiðis væri RÚV ó­heimilt að afla tekna með kostun dag­skrár­efnis og vöru­inn­setning ó­heimil í efni sem fyrir­tækið fram­leiðir sjálft eða í sam­starfi við aðra inn­lenda aðila sem sér­stak­lega er fram­leitt fyrir RÚV.

Breytingarnar tækju gildi í tveimur skrefum. Fyrst í stað verði RÚV ó­heimilt að stunda beina sölu á aug­lýsingum, hlut­fall aug­lýsinga megi ekki fara yfir fimm mínútur á hvern klukku­tíma í út­sendingar­tíma, ó­heimilt verði að slíta í sundur dag­skrár­liði með aug­lýsingum og að lokum er lagt til að kostun verði bönnuð. Þessar tak­markanir tækju gildi árið 2023 og yrðu út það ár. Sam­keppnis­rekstri RÚV á aug­lýsinga­markaði verði síðan hætt í byrjun árs 2024.

Sam­kvæmt frum­varpinu yrði RÚV ó­heimilt að markaðs­setja, kynna, selja eða birta við­skipta­boð, hvort sem er í út­varpi, sjón­varpi eða á vef.

„Flutnings­menn telja að skyn­sam­legra sé að styrkja stöðu einka­rekinna fjöl­miðla með því að tak­marka veru­lega sam­keppnis­rekstur ríkisins fremur en að koma upp flóknu kerfi milli­færslna og ríkis­styrkja. Slíkt stuðlar að auknu heil­brigði á fjöl­miðla­markaði“, segir í greinar­gerðinni en á­samt Óla Birni eru þau Vil­hjálmur Árna­son, Berg­lind Ósk Guð­munds­dóttir, Diljá Mist Einars­dóttir, Ás­mundur Frið­riks­son, Hildur Sverris­dóttir flutnings­menn frum­varpsins.

Þau telja að með því að draga RÚV út af aug­lýsinga­markaði fái það aukið svig­rúm til að sinna lög­bundnu menningar­legu hlut­verki sínu.