Magnús Jóhannesson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, tók í gær við stjórnarformennsku í Úrvinnslusjóði af Laufeyju Helgu Guðmundsdóttur. Skipunartími Laufeyjar var til ársins 2023. Í svari frá umhverfisráðuneytinu segir að Laufey hafi látið af stjórnarformennsku að eigin ósk. Ekki náðist í Laufey Helgu við vinnslu fréttarinnar.

Alþingi samþykkti í vor að Ríkisendurskoðun skyldi rannsaka starfsemi Úrvinnslusjóðs, en sjóðurinn velti tveimur milljörðum króna árið 2020.

Í greinargerð með skýrslubeiðni Alþingis, sem níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram og var samþykkt, kemur fram harðorð gagnrýni á vinnubrögð Úrvinnslusjóðs, svo sem að opinberar tölur sjóðsins séu rangar og stór hluti þess plasts sem fluttur er úr landi og Úrvinnslusjóður greiði fyrir, séu óhreinindi.

Þá sé erfitt að nálgast opinberar tölur yfir ráðstöfun fjármagns sjóðsins, þar sem ekki hafi verið birtir ársreikningar Úrvinnslusjóðs frá árinu 2016.

Langflestar vörur, bæði þær sem eru framleiddar hér á landi og innfluttar, bera svokallað úrvinnslugjald, sem rennur í Úrvinnslusjóð. Viðskiptamódelið á bak við Úrvinnslusjóð er að sjóðurinn semur við verktaka, Sorpu, Terra, Íslenska gámafélagið og fleiri. Þessir aðilar senda síðan upplýsingar um það magn sem þeir hafa safnað, en fá ekki greitt úr Úrvinnslusjóði fyrr en þeir hafa komið þeim til ráðstöfunaraðila sem Úrvinnslusjóður viðurkennir.

Þar á meðal er sænska fyrirtækið Swerec, sem hefur orðið uppvíst að fölsun upplýsinga.

Upp komst um misferli hjá Swerec gagnvart sambærilegum aðilum og Úrvinnslusjóði í Noregi og Svíþjóð, þar sem í ljós kom að endurvinnsluhlutfallið var mun lægra en Swerec hafði gefið upp. Íslendingar voru hins vegar ekki með neina samninga við Swerec sem kváðu á um tiltekinn árangur við flokkunina, að sögn Ólafs Kjartanssonar, framkvæmdastjóri Úrvinnslusjóðs.

Stundingreinir frá því að kviknað hafi í verksmiðju á vegum Swerec í Lettlandi árið 2017, og að gríðarleg mengun hafi hlotist af brunanum og í ljós komið að mörg þúsund tonn af plasti frá Swerec var að finna á svæðinu. Í framhaldinu var gerð húsleit hjá Swerec og í ljós kom að Swerec hafði falsað upplýsingar um hvað yrði um plastið sem það veitti móttöku.

Þá segir Stundin frá því að mikið magn af íslensku plasti hafi fundist á glámbekk í geymslu á vegum fyrirtækis í Kalmar í Svíþjóð, sem Swerec hafði samið við um endurvinnslu, eftir að það fór í þrot.

Stundin greinir einnig frá því að Úrvinnslusjóður hafi ekki gefið upp réttar tölur til Umhverfisstofnunar um förgun á plasti og reyndist mun minna hlutfall af plastinu hafa farið í endurvinnslu en tölur sjóðsins sögðu til um.

Ólafur segir að þær tölur hafi verið leiðréttar um leið og í ljós kom að þær væru rangar, en ekki var gerður greinarmunur á plasti sem fór í endurvinnslu og plasti sem fór í brennslu. Þar er þó mikill munur á, því að það plast sem fer í endurvinnslu er mun verðmætara og umhverfisvænna en það sem er brennt og nýtt í orkuvinnslu.