Tæplega helmingur foreldra barna á leikskólanum Bergheimum í Ölfusi hafa skorað á bæjaryfirvöld að hætta viðræðum við Hjallastefnuna um yfirtöku á rekstri skólans.

Hafa margir þeirra kvartað sáran undan meintu samráðsleysi og sakað meirihlutann um að keyra málið í gegn þvert á vilja stórs hluta foreldra og starfsmanna.

Fréttablaðið greindi frá því í byrjun júlí að mikil óánægja hafi verið með þessa ákvörðun bæjarstjórnar og að „mikil óvissa, reiði, sorg og kvíði“ hafi ríkt meðal starfsmanna.

Ætlað að taka við rekstrinum nokkrum dögum síðar

Á bæjarráðsfundi þann 20. júlí var samþykkt að fela bæjarstjóra að ljúka samningum við Hjallastefnuna og þann 29. júlí var foreldrum og starfsfólki tilkynnt formlega um ákvörðunina, fjórum dögum fyrir sumarfrí. Þá kom fram að búast mætti við því að Hjallastefnan myndi taka við rekstrinum „á næstu dögum.“

Hrafnhildur Hjartardóttir, sem er með barn á Bergheimum, segir fregnirnar hafa komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Daginn eftir hafi starfsmenn verið boðaðir í viðtal hjá fulltrúum Hjallastefnunnar.

„Þau varpa bara þessari sprengju og fara svo í frí,“ segir hún og bætir við að erfitt hafi svo reynst að ná á forsvarsmenn meirihlutans.

Bergheimar hófu aftur starfsemi í gær eftir sumarfrí og er nú stefnt að því að Hjallastefnan taki við rekstri leikskólans í byrjun október. Ekki var óskað eftir því að leikskólastjórinn myndi halda áfram og gegnir aðstoðarleikskólastjórinn nú stöðunni.

Hrafnhildur er ein þeirra sem hefur verið í forsvari fyrir hóp foreldra sem leggst gegn fyrirætlununum og er hún ósátt við að lítið tillit hafi verið tekið til þeirra sjónarmiða. Afhenti hópurinn bæjarstjóra Ölfuss, bæjarstjórn og fulltrúum Hjallastefnunnar 89 undirskriftir foreldra í síðustu viku.

Einungis til í að ræða framkvæmd innleiðingarinnar

Hún segir að þau skilaboð hafi fljótlega fengist frá bæjaryfirvöldum að búið væri að gera bindandi samkomulag við Hjallastefnuna.

Hrafnhildur gefur lítið fyrir þær fullyrðingar að eiginlegar viðræður hafi farið fram við foreldra og starfsmenn í sumar vegna málsins.

„Það eru engar viðræður, það er búið að setja saman stýrihóp en hann snýr eingöngu að því hvernig eigi að innleiða Hjallastefnuna og ekki hvort þetta sé rétta menntastefnan fyrir okkur. Þær viðræður eru bara ekki í boði,“ segir Hrafnhildur í samtali við Fréttablaðið.

Foreldrar hafi upphaflega átt tvo fulltrúa í stýrihópnum en hvorugur þeirra hafi komið úr hópi þeirra sem leggist gegn breytingunni.

„Það var engum okkar boðið í þennan stýrihóp og við mótmæltum því. Það endaði með því að annað foreldrið sem var komið í stýrihópinn gaf sitt pláss sem við þáðum og ein af okkur þremur sem erum meðal annars búnar að vera að funda með Hjallastefnunni fengum þar sæti.“

Fljótlega hafi þó verið fjölgað í stýrihópnum og fulltrúar foreldra og Hjallastefnunnar til að mynda farið úr tveimur í þrjá.

„Svo hún er alein á móti öllum hinum sem vilja Hjallastefnuna.“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Fréttablaðið/Eyþór

Enginn skoðanaágreiningur um hagsmuni barnanna

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segist hafa fullan skilning á því að bæjarbúar hafi ólíkar skoðanir á málinu.

„Það kemur mér ekki á óvart að jafn stór breyting og þetta sé sterk í umræðunni og jafnvel að það sé andstæða við hana hjá einhverjum hluta,“ segir Elliði í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að foreldraráð leikskólans hafi skipað fulltrúa foreldra í stýrihópinn og engin greining hafi farið fram á afstöðu þeirra foreldra til breytingarinnar af hálfu bæjarstjórnar.

Þá hafi verið fjölgað í stýrihópnum meðal annars í kjölfar beiðni frá foreldraráðinu sem óskaði eftir því að sá sem hafi vikið sæti fengi að vera áfram.

Um sé að ræða stýrihóp um innleiðingu Hjallastefnunnar með fulltrúum foreldra, starfsmanna, Hjallastefnunnar og stjórnsýslunnar, og sú vinna unnin með hagsmuni barnanna að leiðarljósi.

„Ég sé ekki neina sviðsmynd þar sem að einhver skoðanaágreiningur geti orðið sem varði hagsmuni barnanna.“

„Í mínum huga eru engar stríðandi fylkingar í þessu. Það er verið að gera breytingar á leikskóla, það er verið að vanda mjög til innleiðingarinnar í samstarfi við foreldra og starfsmenn leikskólans og þetta er bara unnið í sátt og samlyndi.“

Ekki búið að gera bindandi samkomulag

Reynt hafi verið að vinna verkefnið eins fljótt og mögulegt væri til að draga úr óvissu en eftir að óskir hafi borist frá foreldrum og starfsmönnum um að hægja á ferlinu hafi verið brugðist við því.

Elliði hafnar því að búið hafi verið að gera bindandi samkomulag við Hjallastefnuna þegar ákvörðunin var tilkynnt en þó hefði kannski mátt byrja að ræða málið fyrr.

Hann segir að innan við þremur klukkustundum frá því að ákvörðun hafi verið tekin „um að fara í markvissar samningaviðræður við Hjallastefnuna“ hafi verið búið að tilkynna það starfsmönnum leikskólans, foreldrum og fjölmiðlum.

Þá bendir hann á að málið hafi verið samþykkt einróma í bæjarstjórn af fulltrúum beggja flokka.