Pétur Þorsteinsson, stofnandi Snarrótarinnar – samtaka um skaðaminnkun og mannréttindi, mun ekki lengur vera meðlimur í samtökunum eftir rúmlega fimmtíu ára starf.
„Það er heilmikið til í því en mér hefur verið boðið að ganga í hana aftur,“ segir Pétur spurður um hvort hann hafi verið rekinn úr Snarrótinni.
Pétri var boðið að ganga aftur í samtökin rúmum fjórum tímum eftir að hann var rekinn en hann hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann muni þiggja boðið, enda orðinn sjötíu og tveggja ára gamall.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins snérust deilurnar um auglýsingu Snarrótarinnar sem inniheldur meðal annars mynd af Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra. Í auglýsingunni situr Bjarni á bekk og ræðir við ungan dreng. Fyrir ofan þá stendur textinn: „eigum samtalið.“
Pétur sagði deilurnar vissulega vera vegna auglýsingarinnar en sagði málið engu að síður vera „storm í vatnsglasi.“

Ber engin sárindi í garð stjórn Snarrótarinnar
„Mér líkaði ekki við þá auglýsingu það er ekkert leyndarmál. En það eru skiptar skoðanir um hana. Margir eru mjög hrifnir af auglýsingunni og telja hana vel heppnaða. Það skiptir ekki máli hvort ég sé á annarri skoðun,“ segir Pétur sem ber ekki slæman hug til stjórnar Snarrótarinnar.
„Það vottar ekki fyrir neinum sárindum eða ergelsi í garð stjórnar Snarrótarinnar í mínum huga,“ segir Pétur.
„Í stjórn Snarrótarinnar er mikið afbragðsfólk. Þetta er ungt fólk og mjög vel menntað. Það er ólíkt mér að mörgu leyti enda önnur kynslóð. Það tók við Snarrótinni þegar hún var búin að vera algjörlega steindauð í töluvert langan tíma enda var ég hættur að geta sinnt henni vegna heilsubrests,“ segir Pétur.
„Segðu sannleikann og þú verður hvarvetna óvinsæll“
Pétur segir málið í sjálfu sér vera pínulítið kúnstugt. „Ég á það til að vera dálítið hvass. Ég hef vanið mig á þann leiðinlega ósið að vera ákaflega hreinskilinn. Það er til gamalt máltæki sem segir gakktu fyrir hvers manns dyr og segðu sannleikann og þú verður hvarvetna óvinsæll.“
„Þetta er náttúrulega það sem gerðist ég taldi að ég hafði sannleikann um þessa auglýsingu. Mitt mat á auglýsingunni væri rétt og þá er ég ekki að liggja á því og sagði það. Það særði innan Snarrótarinnar og í einhverju sárinda-kasti sem ég get alveg skilið var mér skutlað út fyrir stundarsakir. Ég held það hafi nú ekki liðið meira en einhverjir fjórir klukkutímar þangað til mér var boðið að ganga aftur í félagið,“ segir Pétur og segir málið storm í vatnsglasi.
Meðal þess sem fór í taugarnar á Pétri með auglýsinguna var að hún birtist á sautjánda júní, þeim degi sem sem Richard Nixon, forseti Bandaríkjanna, startaði fíkniefnastríðið formlega árið 1971.
„Að birta mynd af Bjarna Ben, greinilega að ræða við einhvern unglingsræfill, undir fyrirsögninni Tökum samtalið. Þegar aðrar umbótahreyfingar í heiminum voru að fordæma fíkniefnastríðið. Mér fannst þetta ekki vel valið,“ segir Pétur. „Ég hefði viljað sjá þetta vera gert öðruvísi og þannig varð þessi pirringur til um smáatriði