Kristinn Haukur Guðnason
Föstudagur 5. mars 2021
23.00 GMT

Fjölnir er ekki óvanur kjaramálum því hann er alinn upp í stéttabaráttu. Faðir hans, Sæmundur Árnason, samdi um kaup og kjör fyrir prentara og síðar Félag bókagerðarmanna og móðir hans, Guðrún Eyberg, starfaði hjá útvarpsstjóra. Fjölnir ólst upp á Kársnesinu, Kópavogsbúi í þriðja ættlið. „Ég er alinn upp við prentaraverkföll og að fara í kröfugönguna 1. maí,“ segir hann stoltur.

Sem barn og unglingur langaði hann til að verða kennari. Eftir Menntaskólann í Kópavogi lærði hann félagsfræði við Háskóla Íslands en hafði einnig áhuga á mannfræði og afbrotafræði. Lögreglumannsneistinn var því alltaf undir. „Ég kunni Geirfinnsmálið utanbókar og fékk aukavinnu sem næturvörður í Ríkisútvarpinu,“ segir Fjölnir en kennsluáhuginn varð ofan á, alla vega til að byrja með. Árið 1992 kynntist hann eiginkonu sinni Arndísi Valgerðar Pétursdóttur, sem átti tvær dætur fyrir og saman eiga þau eina til viðbótar.

Í eitt ár starfaði Fjölnir sem félagsfræðikennari við sinn gamla menntaskóla. Ákváðu hjónin þá að breyta til og flytja út á land þegar staða grunnskólastjóra í Fljótshlíðinni losnaði. „Þetta var lítill skóli með 32 nemendur og skólatíminn aðeins átta og hálfur mánuður, því krakkarnir þurftu að fara í sauðburð og réttir,“ segir Fjölnir. „Þess vegna fór ég að leysa af í lögreglunni á sumrin.“

Í lögregluna á síðasta séns

Fjölnir fann sig alltaf betur og betur í lögreglunni í Rangárvallasýslu. „Ég sá fram á að þessir litlu sveitaskólar væru að fara að hætta og fór því að líta í kringum mig. Ég fann að lögreglumaður væri starf sem ég gæti unnið,“ segir Fjölnir.

Fór svo að hann fór í lögregluskólann og útskrifaðist þaðan 2005. „Ég var á seinasta séns, því ég var orðinn 35 ára sem er hámarksaldurinn inn í skólann,“ segir hann. „Mörgum þótti þetta nú skrýtið. Að vera búinn að byggja upp feril í kennslu og setjast þá á skólabekk í lögregluskólanum, sem á þeim tíma var framhaldsskólastig. Þetta voru mikil viðbrigði en ég lít svo á að ég hafi ekki lokað öllum dyrum í kennslunni.“

Hann segir starf landsbyggðarlöggu nokkuð öðruvísi en borgarlöggu. Málin séu hins vegar ekki síður alvarleg en í borginni því Rangárvallasýsla sé mikið slysasvæði, sérstaklega eftir að ferðamannabylgjan hófst. Nándin við íbúana sé hins vegar meiri og algengt að fólk hringi í hans persónulega símanúmer eftir aðstoð. Allir þekki alla. Þetta passar vel inn í sýn Fjölnis á löggæsluna. „Mín sýn er að lögreglan eigi að vera hluti af samfélaginu og tala við fólk án þess að nokkuð sérstakt sé að,“ segir hann.

Rýkur ekki á dyr

Frá unga aldri hefur Fjölnir haft sterkar skoðanir í pólitík „og færst alltaf lengra og lengra til vinstri“ að eigin sögn. Hann hefur þó söðlað um allt frá ungliða­starfi Sjálfstæðisflokksins yfir í Samfylkinguna og er nú varaþingmaður Vinstri grænna. Hann gekk í flokkinn til að styðja bæjarfulltrúa í núverandi heimabæ sínum Hafnarfirði, en tók síðar sjálfur sæti í nefndum.

FB-Ernir210301-Fjölnir-01.jpg

Fjölnir var ósáttur við myndun núverandi stjórnar en segir Vinstri græn hafa náð mörgum málum fram.

„Ég er sósíalisti,“ segir Fjölnir og viðurkennir að hvorki Vinstri græn né aðrir flokkar rúmi allar hans skoðanir. Hann hafi til að mynda lagst gegn myndun núverandi ríkisstjórnar og lýsti þeirri skoðun á flokksráðsfundi. „Ég er líka liðsmaður og vinn úr þeirri stöðu sem uppi er hverju sinni. Ef ég er í minnihluta, þá er ég í minnihluta. Ég er ekki einn af þeim sem rjúka á dyr og skella hurðum.“

Þegar litið er um öxl finnst Fjölni þó kjörtímabilið hafa verið gott fyrir sinn flokk og fleiri stefnumál komist í gegn en hann átti von á. „Það er alveg á hreinu að Katrín Jakobsdóttir er verkstjórinn í þessari ríkisstjórn,“ segir hann. Í umhverfis- og heilbrigðismálum hafi flokkurinn einnig sýnt sig.

Brot á réttindum borgaranna

Eðli málsins samkvæmt hefur Fjölnir talað mikið fyrir málefnum lögreglunnar á sviði stjórnmálanna, og hvað betur megi fara. En lögreglan hefur lengst af verið talin málaflokkur Sjálfstæðisflokksins.

„Lögreglumál skipta ekki aðeins lögreglumenn máli. Fyrir nokkrum árum biðu um fimm þúsund mál rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Fjölnir. „Það getur tekið marga mánuði að rannsaka nauðgun. Ekki út af slóðaskap heldur af því að það vantar mannskap. Með undirmönnun í lögreglunni er því verið að brjóta á réttindum borgaranna.“

Hann segir það rétt að lögreglan og hægrið hafi verið spyrt saman, ekki aðeins á Íslandi, og sums staðar lögreglan og fasismi. „Það kom mörgum á óvart að lögreglumenn hefðu kosið yfirlýstan sósíalista sem formann Landssambandsins og það var ekki eins og ég hefði farið leynt með skoðanir mínar,“ segir hann og brosir. Þó segist hann ekki ætla að beita sér í flokkspólitík á sama tíma og hann gegnir formennsku í Landssambandinu. „En lögreglumenn koma úr öllum flokkum. Ég mun reyna að tala fyrir alla lögreglumenn, fólkið sem sinnir þessum störfum, og benda á að þeir séu eins mismunandi og þeir eru margir.“

Pressa vegna reiði samfélagsins

Fjölnir hóf störf sem lögreglufulltrúi í efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra árið 2007 en var lánaður yfir til sérstaks saksóknara árið 2009 í um átta manna teymi til að rannsaka bankahrunið. Þótti hann talnaglöggur og kunni að lesa bókhaldstölur vegna búðareksturs eiginkonu sinnar. Seinna meir var fjölgað í liðinu, bæði lögreglumönnum, lögfræðingum og fólki með reynslu og þekkingu úr bankageiranum og endurskoðun.

Hann segir álagið hafa verið mikið enda reiði samfélagsins kraumandi undir. „Ég lagði mig 110 prósent fram og lúslas gögn í strætó og öllum stundum. Fólk vildi að málin yrðu leyst á sem stystum tíma en þetta voru svo ofboðslegar flækjur. Flækjur sem búnar voru til á mörgum árum og við þurftum að leysa hratt úr,“ segir hann.

Aðspurður hvernig honum finnist hafa tekist til við að rekja hrunið segist Fjölnir ekki fyllilega dómbær á það en þó hafi nokkuð góður árangur náðst. „Stundum vissum við um ýmislegt sem ekki var hægt að sanna og þurftum að láta mál niður falla,“ segir hann. Það hafi ekki verið léttbærar ákvarðanir. „Þá stíga hinir grunuðu oft fram og segjast vera saklausir. En það er ekki endilega svo, það tókst bara ekki að afla nægilegra sönnunargagna.“

Einn af stóru sigrunum var að sýna fram á markaðsmisnotkun bankanna. Nokkrir hafi fengið hámarksdóm fyrir, sem eru sex ár.

„Margir urðu reiðir vegna þess að fólk sem fékk tiltekin lán slapp við refsingu. En þegar málin voru rannsökuð ofan í kjölinn var ekkert saknæmt við það. Heldur var sá sem lánaði sakborningurinn.“

Flækjustigið var einnig áskorun og fékk teymið þau ráð frá Páli Hreinssyni lagaprófessor að hafa framsetninguna einfalda. Það gæti orðið flókið að skýra sum brot fyrir dómi. Meðal þess sem reyndi á var umboðssvikaákvæðið, sem fram að þessu hafði aðallega verið notað vegna smábrota, svo sem misnotkunar á greiðslukortum. Eftir hrunið reyndi á umboð hvers og eins bankastjóra í víðtækum skilningi.

Frændi í Síerra Leóne

„Eftir bankahrunið var ég orðinn þreyttur á sál og líkama. Ég keyrði mig í kaf,“ segir Fjölnir og játar að hafa verið orðinn nokkuð kulnaður. „Ég bað því um árs leyfi til að skipta um gír og fara í nám erlendis.“ Hélt hann út til Amsterdam árið 2013 þar sem hann nam alþjóðlega þróunarfræði og hluti af náminu var að gera rannsóknir á vettvangi. Hélt hann suður til Síerra Leóne á vesturströnd Afríku með Arndísi og yngstu dótturinni Valgerði.

Dvöldu þau í borginni Kenema í austurhluta landsins hjá konu er heitir Henrietta og rekur lítinn stúlknaskóla fyrir ungar einstæðar mæður. Í gegnum Henriettu kynntust þau Gateway-samtökunum sem aðstoða þessar stúlkur að mennta sig, koma undir sig fótunum og berjast fyrir ýmsum réttindum svo sem banni við umskurði.

Samfara rannsókninni fóru Fjölnir og fjölskylda hans að taka meiri þátt í starfi Gateway-samtakanna og safna peningum. Gefa þau enn þá reglulega til samtakanna og árið 2018 fóru þau Arndís aftur út með peninga og fatasendingu frá Íslandi.

gatway skóli.jpg

Fjölnir, Arndís og Valgerður í Síerra Leone árið 2013

En Fjölnir segir starfið ekki aðeins snúast um gjafir, heldur að kenna stúlkunum að standa á eigin fótum. Svo sem að útvega efni og kenna þeim að sauma. Það sama gildi um baráttuna gegn umskurði og vitnar Fjölnir í Henriettu. „Það getur enginn komið á banni við umskurði nema heimakonur. En þær þurfa stuðning til að standa á eigin fótum,“ segir hann.

Fjölnir segir aðstæðurnar í Síerra Leóne mjög frumstæðar miðað við það sem við eigum að venjast, enda mikið gengið á. Í rúman áratug geisaði þar blóðug borgarastyrjöld og síðar mannskæð ebólusótt. Munurinn á höfuðborginni Freetown og sveitunum sé einnig talsverður.

„Spillingin er rótgróin og alltaf er verið að reyna að fá mann til að borga. Vopnaðir lögreglumenn eða verðir stöðva fólk á miðjum þjóðvegi og spyrja það spjörunum úr,“ segir Fjölnir og segir það hafa verið talsvert menningarsjokk að koma þangað í fyrsta skiptið. „Þarna sá ég fyrst menn gangandi um með vélbyssur, jafnvel inni í búðum. Það er augljóslega ennþá mikil spenna í landinu þrátt fyrir að stríðinu hafi lokið fyrir meira en fimmtán árum.“

Hann segir menninguna afar karllæga, sem meðal annars sýni sig í hversu margar ungar konur verða einstæðar mæður því karlarnir yfirgefa þær. Þá þurftu þau hjónin að passa sérstaklega upp á dóttur sína, sem var þá á unglingsaldri, því hún varð fyrir miklu áreiti.

IMG_1484.JPG

Síerra Leone hefur séð erfiða tíma borgarastyrjaldar og ebólufaraldurs.

Þó að Gateway-samtökin séu ekki stór, og sveiflist með hversu vel Henriettu gengur, sáu Fjölnir og fjölskylda hans þó nokkurn afrakstur af starfinu. Það eru stúlkur sem hafa menntað sig og hafið störf sem saumakonur. Ákváðu þau að taka dóttur eins skjólstæðings Henriettu, Jenebu Kallon sem bjó með þeim í Kenema og aðstoðaði, undir sinn verndarvæng og styðja til náms. Er hún sjö ára í dag. „Það mynduðust mörg persónuleg tengsl milli okkar og fólksins í Síerra Leóne,“ segir Fjölnir og að sumir hafi kallað hann frænda, sem þýddi að hann væri orðinn hluti af fjölskyldunni.

Eymd hinna lifandi erfiðust

Eftir dvölina í Afríku og Hollandi sneri Fjölnir aftur til héraðssaksóknara og starfar nú hjá lögreglunni í Rangárvallasýslu. En hann kúplaði sig út úr rannsóknarvinnu. „Þetta er gefandi starf, að tala við fólk og hjálpa þeim sem eru í neyð,“ segir hann. „Ég vil vera þar sem ég get gert gagn og geri miklar kröfur til sjálfs mín.“

En erfiðleikar og álag fylgja starfinu líka. Fjölnir segist vera ágætlega brynjaður fyrir því að sjá dáið fólk. Eitt sumarið í Rangárvallasýslunni urðu til að mynda þrjú flugslys. „Þegar ég var að vinna á bakvöktum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og það kom símtal um miðja nótt vissi ég að sennilega var einhver dáinn,“ segir hann.

Eymd hinna lifandi situr hins vegar meira í honum en að sjá fólk sem er farið. „Um daginn var ég að tala í síma við manneskju sem leið mjög illa. Ég bað hana að koma niður á stöð og tala við okkur en klukkutíma síðar fáum við útkall þar sem hún hafði reynt sjálfsvíg,“ segir hann. „Á svona stundum spyr ég mig hvort ég hefði getað gert eitthvað meira. Kannski farið rakleitt til hennar.“

Börnin treysti lögreglunni

Víkur samtalinu aftur að mannfæð lögreglunnar. Rúmlega 700 lögreglumenn séu starfandi í landinu og þörf á alla vega 200 til viðbótar. En þeir 40 nýútskrifuðu lögreglumenn sem koma inn á hverju ári rétt ná að dekka þá sem hætta störfum. Sumir menntaðir lögreglumenn starfi við allt annað.

Fjölnir segir lögreglumennina sjálfa vel starfi sínu vaxna, en þeir séu of fáir og hafi of lítinn tíma til að sinna verkefnum. Sýnileiki lögreglunnar skipti miklu máli, að fólk sjái lögreglumenn í fullum skrúða og fái tækifæri til þess að tala við þá. Og ekki aðeins þegar eitthvað slæmt kemur fyrir. „Það er töluverð löggæsla fólgin í því að vinka börnum,“ segir hann og brosir. „Það er mikilvægt að krakkarnir treysti lögreglunni alveg frá byrjun.“

FB-Ernir210301-Fjölnir-03_1.jpg

Fjölnir hefur efasemdir um að stytting vinnuvikunnar komi vel út fyrir lögreglumenn.

Í kjöri til formanns Landssambandsins í janúar sigraði Fjölnir sitjandi formann til rúmlega áratugar með um 75 prósentum atkvæða á móti 25. Fjölnir segir að hann hafi verið hvattur til að bjóða sig fram allt frá árinu 2012 en hummað það fram af sér og einbeitt sér að framboðum fyrir Vinstri græn.

Fjölnir jánkar því að kjör hans beri vott um uppsafnaða óánægju meðal lögreglumanna. „Lögreglumenn gera ágætis kjarasamninga en það eru aðeins tæplega 60 prósent sem samþykkja þá. Það hefur verið kraumandi ólga innan lögreglunnar nokkuð lengi núna,“ segir hann.

Lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt en þeir hafa sýnt fram á óánægju sína með því að þramma í kröfugöngum og hringja sig inn veika í stórum stíl. Ýmis óánægju­mál hafa komið upp á undanförnum árum, svo sem hvað varðar búninga, bifreiðar, vaktafyrirkomulag og fleira. Fjölnir segir að launin mættu einnig vera betri og að stytting vinnuvikunnar komi ekki endilega nógu vel út fyrir stéttina.

„Launin eru enn of mikið byggð á álagi á meðan grunnlaunin sitja eftir. Það er vegna þess að hér áður fyrr voru lögreglumenn aðeins karlar sem vildu vinna 200 yfirvinnutíma í mánuði á meðan konurnar sáu um heimilið. Umhverfið er gjörbreytt í dag,“ segir Fjölnir. „Ég vantreysti fjármálaráðuneytinu til að sjá um styttinguna, því það er aðeins búið að taka frá þrjá milljarða í hana á meðan þörfin er tugir milljarða.“

Nefnir hann sem dæmi Lögregluna á Suðurlandi sem sé lítið lögregluembætti en þurfi 200 til 250 milljónir til að stytta vinnuvikuna.

Vopn og neysluskammtar

„Ég hef ekki hitt neinn lögreglumann sem hefur þrýst á aukinn vopnaburð,“ segir Fjölnir spurður um umræðuna eftir hið voveiflega morð í Rauðagerði. Bendir hann á að lögreglan sé nú þegar þjálfuð í vopnaburði og hafi vopn í bílum. Sérsveitin sjái um sérstakar aðstæður, sem eru þó allnokkur útköll.

„Það kemur aldrei til að lögreglan á Íslandi myndi beita skotvopni að fyrra bragði,“ segir Fjölnir og bendir á að lögreglan hafi einu sinni beitt skotvopni gegn manni, í Árbæjarhverfinu árið 2013, eftir að byssumaður hafði skotið bæði í hjálm og skjöld lögreglumanns. Vopnaburður lögreglu snúist fyrst og fremst um ógnarjafnvægi.

„Ef lögregla færi að bera skotvopn á búningum sínum værum við að breyta þjóðfélaginu. Löggæsla á Íslandi snýst um að tala við fólk og fá það til að koma með friðsömum hætti og að fólk geti nálgast lögreglumenn til að ræða við þá,“ segir Fjölnir. „Ef ég væri með byssu á mjöðminni mætti enginn koma nálægt mér.“

Annað deiglumál er afglæpavæðing neysluskammta en fyrir þinginu liggur frumvarp um það. Fjölnir segist hafa efasemdir um málið, meðal annars með tilliti til skilgreiningar. Neysluskammtur sé ekki jafn stór hjá 18 ára einstaklingi og 40 ára sem hafi verið lengi í neyslu. Erfitt sé einnig að álykta hvenær einhver sé orðinn sjúklingur vegna neyslu og á hvaða stigi þetta sé orðið heilbrigðisvandamál.

„Ég hef skilning á að við komum upp öruggum neyslurýmum og bíl Frú Ragnheiðar fyrir fólk sem er djúpt sokkið. Ég er fylgjandi félagslegum úrræðum,“ segir hann. „En ég efast um að við getum sagt að allir megi sökkva djúpt í fíkniefnaneyslu og við ætlum ekki að hafa nein verkfæri til að stoppa fólk fyrr.“

Þá verði að huga að því að af­glæpavæðingin spyrjist út og hingað komi fólk frá öðrum löndum beinlínis til þess að neyta fíkniefna. Þar sem fíkniefni hafi verið leyfð hafi stórfyrirtæki hafið framleiðslu og tekið yfir markaðinn.

„Það liggur falleg hugsun að baki afglæpavæðingunni en staðreyndin er sú að við erum ekki alltaf að refsa fólki sem er djúpt sokkið í neyslu,“ segir Fjölnir. „Miðlæga rannsóknardeildin einbeitir sér fyrst og fremst að þeim sem standa í ínnflutningi.“

Athugasemdir