Ólga er á meðal starfsfólks Vífilsstaða vegna ákvörðunar heilbrigðisyfirvalda um að bjóða út rekstur spítalans á þessu ári. Áætlað er að útboðið gangi eftir næsta haust, en í síðasta lagi um áramót.

Starfsfólki spítalans var tilkynnt um þessa ákvörðun fyrr í vikunni, en þar kom fram að Sjúkratryggingar Íslands undirbúi nú útboðið. Að sögn heimildarmanna blaðsins innan spítalans er ótti á meðal starfsmannanna um að þeir tapi störfum sínum, eða verði færðir til í starfi, en Landspítalinn hefur rekið Vífilstaði um árabil.

„Ég skil áhyggjur starfsmannanna,“ segir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri á meðferðasviði Landspítalans „og þess vegna var fundurinn haldinn með þeim svo þeir fréttu ekki af þessum breytingum úti í bæ.“

Hún segir ástæðu útboðsins vera þá að þjónusta Vífilstaða sé ekki lengur skilgrend sem kjarnastarfsemi spítalans. „En að því sögðu þá ber að hafa í huga að Vífilstaðir hafa verið gríðarlega mikilvægur fyrir starfsemi spítalans,“ segir Guðlaug Rakel og leggur áherslu á að tryggja verði starfsemi hans áfram.

Undanliðin ár hefur á fimmta tug manna notið þjónustu Vífilstaða, einkum háaldrað fólk sem hefur útskrifast af Landspítala en bíður þess að komast á hjúkrunarheimili.

Hátt í fimmtíu starfsmenn hafa unnið á Vífilstöðum, hjúkrunarfræðinar og sjúkraliðar, en stærstur hluti starfsmanna hefur verið ófaglært fólk sem unnið hefur að aðhlynningu, flest hvert félagsmenn Eflingar sem flutt hefur til landsins frá Filipseyjum og fleiri löndum Asíu, svo og Afríku og Suður-Ameríku.

Ótti þessa starfsfólks mun ekki síst vera sá að með útvistun rekstursins til einkaðila muni verða dregið úr þjónustu með uppsögnum og frekara aðhaldi, ellegar að starfólki verði settir þeir afarkostir að flytja sig um set á aðrar deildir Landspítalans, svo sem á Landakoti, Grensási eða við Hringbraut.