Það andar köldu á milli Hveragerðis og Ölfuss þessa dagana eftir að Hveragerðisbær óskaði eftir breytingu á sveitarfélagamörkum. Því var neitað og urðu Hvergerðingar svo reiðir við nágranna sína að þeir ætla að hækka kostnaðarhlutdeild í sameiginlegum verkefnum.

Um miðjan febrúar sendi bæjarráð Ölfuss grönnum sínum svarbréf og benti þeim á að þeir hefðu til umráða níu ferkílómetra en nýttu aðeins tvo undir íbúðabyggð. Þá sagði í bréfinu að Ölfus gæti ekki fallist á þau rök að íbúar í Hveragerði gætu ekki notið útivistarsvæða nema þau væru hluti af skipulagssvæði Hveragerðis. Enda væri það svo að ýmsir góðir staðir í Ölfusi nýtast íbúum í Hveragerði til útivistar þrátt fyrir að tilheyra Ölfusi. Hafnar bæjarráð Ölfuss frekari viðræðum um sveitarfélagamörk en er ávallt tilbúið til viðræðna við granna sína um sameiginleg hagsmunamál.

Þetta fór öfugt ofan í Hvergerðinga sem bókuðu á bæjarráðsfundi sínum á fimmtudag að þeir hörmuðu afstöðu nágranna sinna. Fyrst Ölfus sé ekki tilbúið til viðræðna ætlar bæjarráðið í Hveragerði að hækka kostnaðarhlutdeild Ölfusinga í þeim verkefnum sem rekin eru sameiginlega.

„Þó að Ölfusingar greiði hlutfall af rekstrarkostnaði leik- og grunnskóla miðað við fjölda nemenda á hverjum stað er ljóst að annar afleiddur kostnaður er ekki greiddur,“ segir í bókun bæjarráðs og er talin upp vinna tæknideildar, umhverfisdeildar og bæjarskrifstofu sem allar sinni mikilli vinnu við fræðslustofnanir bæjarins. „Eðlilegt hlýtur að teljast að Ölfusingar greiði hlutdeild í rekstrarkostnaði þessara stoðdeilda miðað við umfang rekstrar fræðslumála í bæjarfélaginu,“ segir enn fremur í bókuninni.

Hefur Aldísi Hafsteinsdóttur bæjarstjóra ásamt skrifstofustjóra verið falið að ræða við Elliða Vignisson og félaga í Ölfusi um aukna þátttöku í þeim kostnaði sem felst í rekstri fræðslustofnana bæjarins.

Breytingu á mörkum sveitarfélaganna var hafnað. Fréttablaðið/Anton Brink