Hafnarfjarðarbær hefur gert félaginu Firringu fasteign að rýma ósamþykktar leiguíbúðir við Suðurhellu 10 á tveimur mánuðum. Húsnæðið er skilgreint sem atvinnuhúsnæði en þar dvelja um 35 manns á efri hæð, bæði Íslendingar og innflytjendur. Í tvö ár þeir sem lengst hafa dvalið.

„Það hefur verið farið í margar óleyfisframkvæmdir þarna. Það eru komnar svalir framan á húsið, búið að koma fyrir milliloftum og rafmagni og stúka svæði af í dvalarrými án þess að leggja inn teikningar. Ekkert af þessu er heimilt,“ segir Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs bæjarins.

Þetta getur skapað hættu þar sem slökkviliðsstjóri hafi ekki gögn um efri hæð. Þá hafa ekki verið greidd gjöld til bæjarins, svo sem gatnagerðargjöld. Samkvæmt Sigurði er hægt að sækja um breytingar á skipulagi fyrir milliloftum og fleiru, en ekki skrá íbúðir í atvinnurými.

„Við gefum mjög rúman tíma til þess að fólk geti fundið sér annan stað. Því er ekki hent beint út á götu,“ segir Sigurður aðspurður um stöðu þeirra leigjenda sem dvelja í húsnæðinu. Um áramótin var rýmingunni frestað.

Hvað varðar óleyfisframkvæmdir sé meðalhófi yfirleitt beitt og dagsektum sé ekki farið að tilmælum byggingarfulltrúa. Þá er hægt að fjarlægja ólöglega gjörninga á kostnað eiganda.

Konráð Magnússon, eigandi Firringar fasteignar, segir óleyfisbreytingar, svo sem uppsetningu millilofta, hafa verið til staðar þegar félagið keypti stærstan hluta húsnæðisins.

Árið 2016 keypti félagið fyrsta bilið og á nú sex. Hann viðurkennir að búseta leigjendanna sé óleyfileg en segist hafa barist fyrir leyfi innan bæjarkerfisins lengi.

Um margar óleyfisframkvæmdir í husinu er að ræða, meðal annars svalir á húsinu að sögn sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs bæjarins.
Fréttablaðið / Stefán

„Þarna er ungt fólk sem hefur ekki efni á að leigja á markaði,“ segir Konráð og að leigan sé mjög hagstæð. Segir hann íbúðirnar vel útbúnar og að hugað sé vel að brunavörnum. „Ég hef sótt um leyfi fyrir breytingum en ekki fengið enn þá.“ Konráð segir andstöðu annars eiganda hússins koma í veg fyrir skipulagsbreytingu og að hann hafi reynt að kaupa þann nágranna út.

Aðspurður hvers vegna rýmin séu leigð út þegar leyfi liggi ekki fyrir segir Konráð þau fyrst og fremst hafa verið leigð út sem vinnustofur. „Fólk sem leigir fer að gista þarna. Þetta þróast þannig,“ segir hann. Leigusamningarnir hafa ekki verið þinglýstir en Konráð segir skatta af leigutekjum greidda í gegnum félagið. „Þetta er ekki svört atvinnustarfsemi en bærinn fær ekki sín lögbundnu gjöld af því að byggingarfulltrúi neitar að samþykkja að þetta sé til,“ segir hann

Árið 2017 bjuggu 1.100 manns í óleyfishúsnæði í Hafnarfirði samkvæmt minnisblaði slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins og á bilinu 3 til 5 þúsund manns á öllu svæðinu. Nú er fjöldinn talinn vera á bilinu 5 til 7 þúsund.

Konráð segist enn vera að berjast fyrir því að fá rýmin samþykkt og afstýra rýmingunni. „Í versta falli verður fólkinu vísað út á götu að kröfu byggingarfulltrúa,“ segir hann. „Ef það skeður þarf fólkið væntanleg að finna sér annað ólögmætt húsnæði sem er mun verra en það sem ég býð upp á.“