Ný­sjá­lenskur blaða­maður sem leitaði hjálpar Tali­bana þegar henni var meinað um inn­göngu í Nýja-Sjá­land til að fæða barn sitt hefur fengið leyfi til að snúa aftur til heima­landsins.

Mál Char­lotte Bellis vakti heims­at­hygli þegar hún sagði sögu sína í pistli sem birtist í dag­blaðinu New Zea­land Herald í síðustu viku. Þar greindi hún frá því að hún hefði neyðst til að snúa sér til Tali­bana þegar henni var meinað að snúa aftur heim til Nýja-Sjá­lands vegna stranga tak­markana á landa­mærunum.

„Þegar Tali­banar bjóða þér – ó­léttri, ó­giftri konu – öruggt skjól, þá veistu að á­stand þitt er ruglað,“ skrifaði Bellis en Tali­banar eru jú ekki þekktir fyrir að vera miklir stuðnings­menn kven­réttinda.

Bellis var þá stödd í Belgíu á­samt kærasta sínum sem er belgískur en land­vistar­leyfi hennar var við það að renna út og að Afgan­istan var eina aðra landið sem hún var með land­vistar­leyfi, eftir að hafa unnið þar sem blaða­maður í fyrra.

Hún kvaðst hafa bókað fjar­fund með full­trúum Tali­bana þar sem hún út­skýrði stöðu sína og þeir hafi boðið hana og kærasta hennar vel­komin inn í landið þrátt fyrir að öfga­hópurinn sé þekktur fyrir að beita ein­hleypar konur og ein­stæðar mæður miklu harð­ræði.

„Þú getur komið og það verður ekki vanda­mál. Segðu bara fólki að þið séuð gift og ef það stig­magnast hringdu þá í okkur,“ hafði Bellis eftir full­trúa Tali­bana. Hún sam­þykkti heim­boð Tali­bana og flaug skömmu síðar til Kabúl, höfuð­borgar Afgan­istan, þar sem hún dvelur nú.

Gífurlega ströng landamærastefna

Mál Bellis barst til eyrna ný­sjá­lensku ríkis­stjórnarinnar og í dag var greint frá því að henni hefði verið veitt leyfi til að fljúga til Wellington og pláss á sótt­kvíar­hóteli en allir Ný­sjá­lendingar þurfa að dvelja í tíu daga sótt­kví við komuna til landsins og eru pláss á slíkum hótelum mjög tak­mörkuð.

„Það er pláss í fyrir ung­frú Bellis í stýrðri ein­angrun og sótt­kví og ég hvet taka til að taka það,“ sagði vara­for­sætis­ráð­herra Nýja-Sjá­lands, Grant Robert­son, á dag­legum upp­lýsinga­fundi ríkis­stjórnarinnar.

Hann neitaði því að á­kvörðunin hefði verið tekin vegna fjöl­miðla­at­hyglinnar í kjöl­far skrifa Bellis og sagði að ríkis­starfs­menn þyrftu dag­lega að fara í gegnum sam­bæri­leg neyðar­til­felli.

Bellis greindi frá fréttunum á Insta­gram-síðu sinni og þakkaði auð­sýndan stuðning.

„Ég mun snúa aftur til heima­lands míns Nýja-Sjá­lands í mars til að fæða stúlkuna okkar. Við erum svo spennt að koma aftur heim og vera um­kringd fjöl­skyldu og vinum á svo sér­stökum tíma. Við viljum þakka Ný­sjá­lendingum fyrir yfir­þyrmandi stuðning þeirra. Þetta er búið að vera stressandi og hlý­leg orð ykkar og stuðningur hafa hjálpað okkur Jim gífur­lega,“ skrifaði hún.

Saga Bellis hefur vakið at­hygli víða um heim og hafa fjöl­margir gagn­rýnt ný­sjá­lensk yfir­völd fyrir harka­lega landa­mæra­stefnu og hvatt þau til að breyta neyðar­skil­greiningum sínum til að hleypa ó­léttum konum inn í landið.

Yfir­völd í Nýja-Sjá­landi segja landa­mæra­reglur sínar þó hafa reynst vel í því að halda far­aldrinum í skefjum, komið í veg fyrir dauðs­föll og varnað heil­brigðis­kerfinu frá því að fara á hliðina.