Sem nútímamaður hef ég staðið við hlið konunnar minnar í gegnum meðgöngur og fæðingar. Þegar annað barnið okkar var á leiðinni, hafði baráttan við að koma því í heiminn staðið í tvo sólarhringa. Þá fór mig að svima og ég lyppaðist niður í stól. Fagfólk gleymdi frúnni minni eitt andartak og tók að stumra yfir mér. Þetta þótti ekki karlmannlegt og af þremur tíðindamiklum fæðingum í fjölskyldunni stendur þessi atburður klárlega upp úr. Fátt er slappara en karl sem krefst umönnunar við aðstæður sem þessar.


Fæðingarhátíð og óléttuhátíð


Núna er aðventan gengin í garð og þá fer vel á því að ræða meðgöngu. Fyrst jólin eru fæðingarhátíð þá er aðventan óléttuhátíð. Það er í sjálfu sér fátt frumlegt við þá hugmynd. María er jafnan í sviðsljósinu um þetta leyti og kórar syngja henni heill við tónlist, nýja og forna. Frægasta meðgöngu- og fæðingarsagan er einmitt af henni og Jósef þar sem þau fara til borgarinnar Betlehem. Lúkas guðspjallamaður er ekki upptekinn af smáatriðum en hugmyndaríkt fólk hefur bætt við myndum, stefjum, tónum og ýmsum hugrenningum.

Fyrsti í aðventu er nú á sunnudaginn. Fréttablaðið/Stefán

Sagan snertir á sterkum tilfinningum. Aldrei erum við eins berskjölduð og þegar barn er á leið í heiminn. Varnarleysi hvítvoðungsins gerir hann um leið að miðju og hjarta þess samfélags sem hann tilheyrir. Fyrir vikið gefur hann öllum í kringum sig tilgang og hlutverk. Þrautir, andvökur og erfiðleikar geta tekið sinn toll en skilja líka eftir þá kennd í brjóstum þeirra sem ala önn fyrir barninu að þau hafi skipt máli og mögulega uppfyllt sinn tilgang.

Það er í þessu samhengi sem kristnir menn fagna upphafi þess sem við köllum fagnaðarerindi, einmitt þegar lífið er hvað viðkvæmast.


Þegar biðin er að baki


Þrátt fyrir krankleika og alls kyns óþægindi við það þegar fóstur verður að hvítvoðungi – þá eru minningar þessara atburða oftar en ekki baðaðar björtu ljósi. Og hörmungar eins og þegar karlinn fer að sundla verða mjög fljótlega kómískar. Ef allt gengur að óskum eru foreldrar með nýfætt afkvæmi í fanginu geislandi af hamingju. Og það, þrátt fyrir þá staðreynd að fáeinum mínútum áður var tilveran þraut og pína.

Þegar barnið er komið í fang móðurinnar þá synda líffæri hennar í sæluhormónum og svitastorkin brosir hún út að eyrum með lítið vanmáttugt líf á brjósti. Þetta má yfirfæra á margt í okkar lífi. Endapunkturinn situr eftir í minningunni og ef hann er góður þá verður hitt allt í stakasta lagi líka, svona þegar við lítum um öxl.


Aðventan 2020

Og nú þegar aðventan 2020 gengur í garð þá grunar mig að mörgum líði svipað og mér þegar fæðingin dróst á langinn meira en góðu hófi gegndi. Við erum öll aðframkomin eftir að pestin hefur vomað yfir samfélagi okkar svo mánuðum skiptir. Já, þeir eru víst orðnir níu mánuðirnir.

Margt í umgjörð aðventu og jóla minnir á undur lífs og fæðingar. Skammdegið, myrkrið, kuldinn og allt sem því fylgir – víkur fyrir öllum þeim ljóma sem við kunnum að framkalla. Já, sólin fer svo að nýju að hækka á lofti. Þá er einmitt eins og allt sé gott og allt hafi verið gott, þrátt fyrir hríðarél og nepju.

Óskandi er að sú kennd lifi í brjóstum okkar þegar lífið verður aftur eðlilegt og við getum litið til baka. Vonandi verðum við stolt yfir því að hafa axlað okkar byrðar og sýnt fyllstu aðgát. Og mögulega sjáum við það í nýju ljósi sem okkur þykir núna illbærilegt og ferlegt. Hver veit nema að með tímanum verði það tilefni þess að við getum brosað út í annað?

Megi aðventan fylla okkur krafti og von.