Ó­léttri konu var ráðinn bani af veiði­hundum eftir að hafa verið á göngu með hundinn sinn í skógi ná­lægt Villers-Cotterêts í Frakk­landi. Að sögn lög­reglu fannst lík Elisu Pilarski , sem var 29 ára að aldri, síðast­liðinn laugar­dag og var illa leikið eftir hundana.

Skömmu fyrir and­látið hringdi Elisa í eigin­mann sinn og sagði honum að hópur ógn­vekjandi hunda væru staddir í skóginum. Það var eigin­maðurinn sem upp­götvaði síðar lík hennar en hann hafði heyrt ýlfur í hundi þeirri hjóna.

Blæddi út vegna á­verkanna

Krufning sýndi fram á að Elisu hafi blætt út eftir fjölda hunda­bita sem stað­sett voru á öllum út­limum hennar og höfði. Ein­hver bitanna áttu sér stað eftir að konan var látin að sögn sak­sóknara.

Lög­regla rann­sakar nú árásina en búið er að fram­kvæma prófanir og taka líf­sýni úr 93 hundum. Grunur liggur á að veiði­hundar sem voru á dá­dýra­veiðum hafi orðið Elisu að bana en einnig voru tekin líf­sýni úr hundum hjónanna, sem eru fimm talsins. Vonast er til að lífsýnin geti sýnt fram á hvaða hundar báru ábyrgð á dauða hennar.

Veiðihundar eru grunaðir um að hafa ráðið óléttri konu bana í Frakklandi.

Veiði­tíma­bilið ekki stöðvað

Leik­konan og dýra­verndunar­sinninn Brigitte Bar­dot hvatti stjórn­völd í til að stöðva veiði­tíma­bilið sam­stundis vegna málsins. Sam­tök veiði­manna þver­tóku fyrir það og sögðu ekkert sýna fram á að veiði­hundarnir hefðu komið að dauða Elisu.

Yfir þrjá­tíu þúsund veiði­hundar eru í Frakk­landi og að sögn tals­manna veiði­sam­takanna er hundarnir þjálfaðir til að veiða á­kveðin dýr og hlýða mann­fólki í öllum kring­um­stæðum.