Reiði vaknaði á ný meðal and­stæðinga hertra þungunar­rofs­laga í Pól­landi þegar ólétt kona lést úr blóð­eitrun á spítala eftir að ekki mátti fjar­lægja úr henni látið fóstur. Fjöldi mót­mælenda safnaðist saman meðal annars í Var­sjá og Kraká í gær.

Konan, sem þekkt er undir nafninu Agnieszka T., var 37 ára þegar hún lést. Hún lagðist inn á spítala vegna maga­verkja en hún var ó­létt af tví­burum.

Þann 23. desember síðast­liðinn lést annað fóstrið en sam­kvæmt fjöl­skyldu Agnieszku mátti ekki fjar­lægja fóstrið vegna strangra þungunar­rofs­laga. Læknarnir vildu bíða og sjá hvort hitt fóstrið myndi ná sér á strik.

Seinna fóstrið lést á gaml­árs­dag en Agnieszka var á­fram á spítalanum þangað til hún sjálf lést fyrir tveimur dögum síðan, síðast­liðinn þriðju­dag.

Þungunarrof ólöglegt í nánast öllum tilvikum


Þúsundir manns mótmæltu á síðasta ári þegar þrí­tug kona lést úr blóð­eitrun eftir fóstur­lát en strangari lög­gjöf um þungunar­rof var sam­þykkt snemma á síðasta ári.

Ríkis­stjórn Pól­lands gerði það ó­lög­legt að rjúfa með­göngu vegna veikinda fósturs og segja það vera til að koma í veg fyrir svo­kölluð „kyn­bóta fóstur­eyðingar“. Mót­mælendur segja nýju lögin neyða konur til að við­halda ó­léttum gegn þeirra vilja.

Mótmælendur og syrgjendur kveikja á kertum til minningar Angieszku.
Fréttablaðið/Getty

Þungunar­rof er nú svo til ó­lög­legt í öllum til­vikum nema þegar um nauðgun eða sifja­spell er að ræða eða ef líf móðurinnar er talið vera í hættu.

Yfir­völd í Pól­landi rann­saka hvort læknar hafi sett móðurina í hættu að ó­þörfu með þeim af­leiðingum að hún hafi látist.

Fjöldi mann­réttinda­sam­taka hafa talað gegn þungunar­rofs­lög­gjöf Pól­lands og segja það hafa skelfi­leg á­hrif á líf kvenna í landinu. Hert að­gengi að þungunar­rofi hefur sett konur í mikla hættu, með hörmu­legum af­leiðingum fyrir margar þeirra.

Ríf­lega þúsund kvenna hafa þegar leitað réttar síns til mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu vegna laganna, sam­kvæmt frétt á EuroNews.