Reiði vaknaði á ný meðal andstæðinga hertra þungunarrofslaga í Póllandi þegar ólétt kona lést úr blóðeitrun á spítala eftir að ekki mátti fjarlægja úr henni látið fóstur. Fjöldi mótmælenda safnaðist saman meðal annars í Varsjá og Kraká í gær.
Konan, sem þekkt er undir nafninu Agnieszka T., var 37 ára þegar hún lést. Hún lagðist inn á spítala vegna magaverkja en hún var ólétt af tvíburum.
Þann 23. desember síðastliðinn lést annað fóstrið en samkvæmt fjölskyldu Agnieszku mátti ekki fjarlægja fóstrið vegna strangra þungunarrofslaga. Læknarnir vildu bíða og sjá hvort hitt fóstrið myndi ná sér á strik.
Seinna fóstrið lést á gamlársdag en Agnieszka var áfram á spítalanum þangað til hún sjálf lést fyrir tveimur dögum síðan, síðastliðinn þriðjudag.
Þungunarrof ólöglegt í nánast öllum tilvikum
Þúsundir manns mótmæltu á síðasta ári þegar þrítug kona lést úr blóðeitrun eftir fósturlát en strangari löggjöf um þungunarrof var samþykkt snemma á síðasta ári.
Ríkisstjórn Póllands gerði það ólöglegt að rjúfa meðgöngu vegna veikinda fósturs og segja það vera til að koma í veg fyrir svokölluð „kynbóta fóstureyðingar“. Mótmælendur segja nýju lögin neyða konur til að viðhalda óléttum gegn þeirra vilja.

Þungunarrof er nú svo til ólöglegt í öllum tilvikum nema þegar um nauðgun eða sifjaspell er að ræða eða ef líf móðurinnar er talið vera í hættu.
Yfirvöld í Póllandi rannsaka hvort læknar hafi sett móðurina í hættu að óþörfu með þeim afleiðingum að hún hafi látist.
Fjöldi mannréttindasamtaka hafa talað gegn þungunarrofslöggjöf Póllands og segja það hafa skelfileg áhrif á líf kvenna í landinu. Hert aðgengi að þungunarrofi hefur sett konur í mikla hættu, með hörmulegum afleiðingum fyrir margar þeirra.
Ríflega þúsund kvenna hafa þegar leitað réttar síns til mannréttindadómstóls Evrópu vegna laganna, samkvæmt frétt á EuroNews.