Alls hefur verið gefið út 91 nálgunarbann á þessu ári, en lögreglan hefur á þessu ári, um land allt, fengið 1.787 tilkynningar um heimilisofbeldi.

Í nýrri skýrslu frá Grevio-nefnd Evrópuráðsins er lýst yfir áhyggjum af þessu og í samantekt ríkislögreglustjóra í vikunni er þetta tekið saman. Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir athvarfið mjög meðvitað um þetta og að þær hafi áhyggjur af þessu.

„Við höfum mjög miklar áhyggjur af þessu. Við erum svo sem ekki inni í lagaumhverfinu en við vitum frá okkar konum að það er í algerum undantekningartilfellum sem konur eru að sækja um nálgunarbann. Ég veit að þessar tölur hafa komið á óvart en það virðist vera tilfinning okkar kvenna að þær uppfylli ekki skilyrði nálgunarbanns og að það sé langsótt að sækjast eftir því,“ segir Linda og harmar þessa upplifun kvenna af nálgunarbanninu.

Tala þær um það hvar hindrunin er helst?

„Þær tala um að það sé erfitt að ná þessu í gegn og að þessu sé ekki fylgt eftir ef þær fá þetta í gegn. Þær upplifa sig ekki öruggar. Hjá okkur eru konur sem eru að koma úr hættulegustu aðstæðunum,“ segir Linda.

Hún segist vita af einu nýlegu dæmi þar sem þolandi fékk slíkt bann í gegn, en þá hafði gerandi hennar einnig ráðist að konu í opinberu rými þar sem voru mörg vitni.

„Þá gat hún fengið þetta í gegn, en almennt er upplifun kvenna að þeim sé ekki trúað og ofbeldið ekki metið nægilega alvarlegt. Þetta er bara það sem kemur fram í okkar skýrslum og hér er aðeins hluti þeirra kvenna sem verða fyrir ofbeldi, en þetta er alls ekki úrræði sem við þekkjum. Okkur þykir það sorglegt. Okkar konur óttast sína ofbeldismenn mjög mikið og þora ekki að sækja um nálgunarbann af ótta við afleiðingarnar sem fylgja þegar þeir frétta af því og því að afleiðingarnar af því að brjóta á nálgunarbanninu eru ekki svo miklar,“ segir Linda og að konurnar sjái þannig ekki vörn í nálgunarbanninu.

Hún segir að upplifun kvennanna sé sú að það stoppi ekkert ofbeldismennina í að koma aftur inn á heimilið og að það taki því hreinlega ekki að sækja um nálgunarbannið.

„Þau skilaboð sem þær fá er að ferlið sé flókið og að þetta sé kannski ekki þess virði, vegna ótta við geranda og vegna þess hve það er langsótt að fá þetta.“

Linda segir að Kvennaathvarfið hafi verið að horfa til annarra landa þar sem bæði nálgunarbann og brottvísun af heimili eru úrræði sem eru notuð mun oftar.

„Sums staðar er meira að segja notast við ökklabönd til að fylgjast með gerendum, en hér heima virðist þetta enn vera nokkuð máttlaust,“ segir Linda, sem vill að það sé kannað hvort verkferlar séu nógu skýrir er kemur að upplýsingagjöf til þolenda og að það verði að tryggja að viðurlögin við því að brjóta á nálgunarbanni séu veruleg.