Enginn notar ölduspákerfi sem hannað var sem grunnur fyrir ætluðu viðvörunarkerfi við Reynisfjöru. Vonir stóðu til þess að spákerfið myndi vara ferðamenn við hættulegum aðstæðum á fjörunni en það hefur ekki verið tengt við frekara viðvörunarkerfi né kynnt eða auglýst og safnar því ryki á vefsíðu Vegagerðarinnar. Fjögur banaslys hafa orðið í fjörunni frá árinu 2016, hið síðasta á föstudaginn var.

„Það fer enginn á vef Vegagerðarinnar til að tékka hvernig staðan er,“ sagði Fannar Gíslason, forstöðumaður hafnadeildar hjá Vegagerðinni. „Það veit enginn um þetta.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi ferðamálaráðherra, fól Ferðamálastofu að ganga til samninga við Vegagerðina um þróun ölduspákerfisins árið 2017. Um 20 milljónir króna voru settar til hliðar af fjárveitingum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vegna þróunar kerfisins. Með kerfinu er hugbúnaður notaður til þess að reikna öldur af hafi nokkra daga fram í tímann.

„Við erum með þetta kerfi uppsett hjá okkur á vef Vegagerðarinnar,“ sagði Fannar við Fréttablaðið. „Það var hlutverk okkar að setja þetta tól á laggirnar en það er hlutverk Almannavarna að nýta það. Þessar tuttugu milljónir voru settar í að setja upp ölduspána og einnig áhættumat og greiningu á því sem ætti að gera. Hlutirnir flæktust þegar átti að ákveða hvernig það yrði tilkynnt að það væri hætta. Í dag er kerfið bara á netinu og það kemur grænn, gulur eða rauður litur eftir því hvernig sjólag er, bæði varðandi sjávarhæð og ölduhæð og öldulengd.“

Fannar segir að hugsunin hafi verið að kerfið yrði tengt við flögg eða ljós við Reynisfjöru en slíkt viðvörunarkerfi hafi aldrei verið sett upp. „Það var búið að kaupa einhverja staura en þeir voru ekki uppsettir því það þurfti að hafa skiltin samræmd og samræmda útlitið var ekki til á Íslandi. Þetta verkefni var lítið til að byrja með en varð að einhverju skrímsli.“

Fannar sagðist efast um að viðvörunarkerfið myndi nægja til að koma í veg fyrir slys við Reynisfjöru þótt það yrði sett upp. Meðal annars benti hann á að viðvörunarstigið hafi aðeins verið gult á föstudaginn, þegar síðasta slysið varð. „Við þekkjum þetta með göngustígana við Gullfoss. Stundum er þeim lokað en samt labbar fólk fram hjá. Og þegar fjallavegum er lokað vegna ófærðar eru alltaf einhverjir hálfvitar sem keyra fram hjá skiltunum. Ég held að það þyrfti að hafa einhvern vörð þarna eins og á erlendum ströndum.“

„Það er nefnd í þessu og það gengur allt hægt hjá henni,“ sagði Fannar. „Landeigendurnir eru ekki alveg blásaklausir. Eðlilega hafa þeir skoðanir á þessu. Þetta stendur ekki á þeim núna en á sínum tíma voru auðvitað miklar vangaveltur um það hvernig útsetningin ætti að vera, sem olli töfum.“