Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær sameiginlegt lagafrumvarp beggja flokka um byssulöggjöf í Bandaríkjunum. Um er að ræða fyrsta skrefið í átt að hertari byssulöggjöf Bandaríkjanna í áratugi en um er að ræða viðbragð við þeim gífurlega fjölda skotárása sem hafa átt sér stað í skólum þar vestanhafs undanfarin ár.
„Fjölskyldur í Uvalde og Buffalo og allt of mörgum öðrum skotárásum hafa krafist aðgerða. Og í kvöld tókum við til aðgerða,“ sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti í kjölfar samþykktarinnar og bætti því við að börn og aðstandendur þeirra myndu verða öruggari vegna þessa.
Þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings samþykktu frumvarpið í gær með 65-33 meirihluta. Athygli vekur að fimmtán Repúblikanar kusu með því ásamt öllum fimmtíu þingmönnum Demókrata en Repúblikanaflokkurinn hefur barist einna harðast gegn auknu byssueftirliti í Bandaríkjunum.
Fulltrúadeild þingsins kýs um frumvarpið í dag og er talið að það gæti mætt ívið meiri andstöðu þar þótt líklegt þyki að það muni að endingu verða samþykkt.
Hófleg málamiðlun
Mánuður er síðan átján ára gamall byssumaður myrti nítján nemendur og tvo kennara í grunnskóla í Uvalde, Texas. Nokkrum dögum fyrir það myrti hvítur byssumaður tíu svarta Bandaríkjamenn í matvörubúð í Buffalo, New York í árás sem er talin hafa verið framin vegna kynþáttafordóma.
Ákallið frá almenningi um hertari byssulöggjöf hefur sjaldan verið meiri en í kjölfar þessara tveggja árása og varð til þess að fulltrúar bæði Demókrata og Repúblikana komu sér saman um frumvarpið sem er talið vera hófleg málamiðlun í rétta átt.
Frumvarpið mælir fyrir um hertari bakgrunnsskoðun fyrir byssukaupendur undir 21 árs aldri, gerir þeim sem hafa verið sakfelldir fyrir heimilisofbeldi erfiðara um vik að verða sér úti um skotvopn og hjálpar fylkjum að innleiða svokölluð „red flag“ lög sem auðvelda stjórnvöldum að fjarlægja skotvopn tímabundið frá fólki sem er talið vera hættulegt. Þá myndu lögin einnig setja aukið fjármagn í forvarnarstarf fyrir skólaöryggismál, geðheilbrigðismál og baráttu gegn ofbeldi.
Ekki allra meina bót
Frumvarpið er talið vera mikilvægt skref í átt að hertari byssulöggjöf í Bandaríkjunum en ýmsir Demókratar, þar á meðal Bandaríkjaforseti, telja það þó ekki ganga nærri nógu langt.
„Þetta er ekki allra meina bót fyrir öll þau svið sem byssuofbeldi hefur áhrif á þjóðina okkar. En þetta er löngu tímabært skref í rétta átt,“ sagði Chuck Schumer, þingflokksformaður demókrata í öldungadeild frá New York.