Öldunga­deild Banda­ríkja­þings sam­þykkti í gær sam­eigin­legt laga­frum­varp beggja flokka um byssu­lög­gjöf í Banda­ríkjunum. Um er að ræða fyrsta skrefið í átt að hertari byssu­lög­gjöf Banda­ríkjanna í ára­tugi en um er að ræða við­bragð við þeim gífur­lega fjölda skot­á­rása sem hafa átt sér stað í skólum þar vestan­hafs undan­farin ár.

„Fjöl­skyldur í Uvald­e og Buffa­lo og allt of mörgum öðrum skot­á­rásum hafa krafist að­gerða. Og í kvöld tókum við til að­gerða,“ sagði Joe Biden Banda­ríkja­for­seti í kjöl­far sam­þykktarinnar og bætti því við að börn og að­stand­endur þeirra myndu verða öruggari vegna þessa.

Þing­menn öldunga­deildar Banda­ríkja­þings sam­þykktu frum­varpið í gær með 65-33 meiri­hluta. At­hygli vekur að fimm­tán Repúblikanar kusu með því á­samt öllum fimm­tíu þing­mönnum Demó­krata en Repúblikana­flokkurinn hefur barist einna harðast gegn auknu byssu­eftir­liti í Banda­ríkjunum.

Full­trúa­deild þingsins kýs um frum­varpið í dag og er talið að það gæti mætt ívið meiri and­stöðu þar þótt lík­legt þyki að það muni að endingu verða sam­þykkt.

Hóf­leg mála­miðlun

Mánuður er síðan á­tján ára gamall byssu­maður myrti ní­tján nem­endur og tvo kennara í grunn­skóla í Uvald­e, Texas. Nokkrum dögum fyrir það myrti hvítur byssu­maður tíu svarta Banda­ríkja­menn í mat­vöru­búð í Buffa­lo, New York í árás sem er talin hafa verið framin vegna kyn­þátta­for­dóma.

Á­kallið frá al­menningi um hertari byssu­lög­gjöf hefur sjaldan verið meiri en í kjöl­far þessara tveggja á­rása og varð til þess að full­trúar bæði Demó­krata og Repúblikana komu sér saman um frum­varpið sem er talið vera hóf­leg mála­miðlun í rétta átt.

Frum­varpið mælir fyrir um hertari bak­grunns­skoðun fyrir byssu­kaup­endur undir 21 árs aldri, gerir þeim sem hafa verið sak­felldir fyrir heimilis­of­beldi erfiðara um vik að verða sér úti um skot­vopn og hjálpar fylkjum að inn­leiða svo­kölluð „red flag“ lög sem auð­velda stjórn­völdum að fjar­lægja skot­vopn tíma­bundið frá fólki sem er talið vera hættu­legt. Þá myndu lögin einnig setja aukið fjár­magn í for­varnar­starf fyrir skóla­öryggis­mál, geð­heil­brigðis­mál og bar­áttu gegn of­beldi.

Ekki allra meina bót

Frum­varpið er talið vera mikil­vægt skref í átt að hertari byssu­lög­gjöf í Banda­ríkjunum en ýmsir Demó­kratar, þar á meðal Banda­ríkja­for­seti, telja það þó ekki ganga nærri nógu langt.

„Þetta er ekki allra meina bót fyrir öll þau svið sem byssu­of­beldi hefur á­hrif á þjóðina okkar. En þetta er löngu tíma­bært skref í rétta átt,“ sagði Chuck Schumer, þing­flokks­for­maður demó­krata í öldunga­deild frá New York.