Í dag eru hundrað ár liðin frá óeirðunum í Tulsa, Oklahoma, einum verstu kynþáttamorðum í sögu Bandaríkjanna þar sem hátt í 300 svartir íbúar Greenwood hverfisins voru myrtir og hátt í 10.000 manns misstu heimili sín.
„Ég sé enn svarta menn skotna, svarta líkama liggjandi í götunni. Ég finn enn lyktina af reyknum og sé eldinn. Ég sé enn svört fyrirtæki brenna. Ég heyri enn flugvélarnar fyrir ofan. Ég heyri öskrin. Ég hef lifað blóðbaðið á hverjum einasta degi. Landið okkar getur kannski gleymt þessari sögu en ég get það ekki,“ sagði hin 107 ára gamla Viola Fletcher, elsta eftirlifandi fórnarlamb óeirðanna, þegar hún kom fram fyrir Bandaríkjaþingi í síðustu viku.
Óeirðirnar hófust í kjölfar þess að Dick Rowland, 19 ára gamall svartur skóburstari, var ásakaður um að hafa kynferðislega áreitt Söruh Page, 17 ára gamla hvíta stúlku sem var lyftuvörður í Drexel byggingunni. Hin meinta „áreitni“ átti sér stað þann 30. maí 1921 og benda ýmsar kenningar til þess að Rowland hafi hrasað og gripið í hönd Page sem varð bylt við og hljóp öskrandi í burtu.
Degi síðar var Rowland handtekinn og færður í gæsluvarðhald í þinghúsið í Tulsa. Þegar fregnir bárust af handtöku hans safnaðist reiður múgur hvítra manna fyrir utan þinghúsið og til átaka kom á milli þeirra og svartra fyrrverandi hermanna sem höfðu staðið vörð þar fyrir utan.

Brenndu Svarta Wall Street til grunna
Upp úr sauð og í óeirðunum sem brutust út í kjölfarið réðist múgur vopnaðra hvítra manna inn í Greenwood hverfið í norður Tulsa og brenndu það til grunna með áðurnefndum afleiðingum. Í Greenwood bjuggu um 10.000 svartir Bandaríkjamenn og þar mátti finna mikið af verslunum og þjónustu í eigu svartra atvinnurekenda svo hverfið gekk undir nafninu Svarta Wall Street.
Múgurinn fór ránshendi um Greenwood, réðist inn á heimili fólks, brenndi þau til grunna og skaut fólk á götu úti. Þá var sprengjum varpað yfir hverfið úr flugvélum og er það talið vera fyrsta loftárásin á bandarískri grundu. Um hádegi þann 1. júní 1921, eftir rúman sólarhring af átökum, setti þjóðvarðlið Oklahoma herlög á Tulsa sem batt loks enda á óeirðirnar.
Samkvæmt niðurstöðum skýrslu sem skrifuð var í umboði bandarísku ríkisstjórnarinnar árið 2001 létust hátt í 300 manns í óeirðunum, hundruð særðust, 8000-10.000 manns urðu heimilislaus, 35 húsalengjur brunnu til grunna, 1470 heimili brunnu eða voru rænd og 6000 manns voru færðir í fangabúðir.
Í skýrslunni, sem kom út þegar 80 ár voru liðin frá atburðinum, var mælt með því að fórnarlömb óeirðanna og afkomendur þeirra fengju greiddar stríðsskaðabætur vegna þess sem þeir gengu í gegnum en tuttugu árum síðar bólar enn ekkert á slíkum skaðabótum.