Í dag eru hundrað ár liðin frá ó­eirðunum í Tulsa, Okla­homa, einum verstu kyn­þátta­morðum í sögu Banda­ríkjanna þar sem hátt í 300 svartir í­búar Greenwood hverfisins voru myrtir og hátt í 10.000 manns misstu heimili sín.

„Ég sé enn svarta menn skotna, svarta líkama liggjandi í götunni. Ég finn enn lyktina af reyknum og sé eldinn. Ég sé enn svört fyrir­tæki brenna. Ég heyri enn flug­vélarnar fyrir ofan. Ég heyri öskrin. Ég hef lifað blóð­baðið á hverjum einasta degi. Landið okkar getur kannski gleymt þessari sögu en ég get það ekki,“ sagði hin 107 ára gamla Viola Fletcher, elsta eftir­lifandi fórnar­lamb ó­eirðanna, þegar hún kom fram fyrir Banda­ríkja­þingi í síðustu viku.

Ó­eirðirnar hófust í kjöl­far þess að Dick Rowland, 19 ára gamall svartur skó­burstari, var á­sakaður um að hafa kyn­ferðis­lega á­reitt Söruh Page, 17 ára gamla hvíta stúlku sem var lyftu­vörður í Drexel byggingunni. Hin meinta „á­reitni“ átti sér stað þann 30. maí 1921 og benda ýmsar kenningar til þess að Rowland hafi hrasað og gripið í hönd Page sem varð bylt við og hljóp öskrandi í burtu.

Degi síðar var Rowland hand­tekinn og færður í gæslu­varð­hald í þing­húsið í Tulsa. Þegar fregnir bárust af hand­töku hans safnaðist reiður múgur hvítra manna fyrir utan þing­húsið og til á­taka kom á milli þeirra og svartra fyrr­verandi her­manna sem höfðu staðið vörð þar fyrir utan.

Fjölmargir minntust aldarafmælis óeirðanna í Tulsa, þeirra á meðal voru meðlimir Svörtu hlébarðanna sem gengu vopnaðir um götur Greenwood hverfisins í gær.
Fréttablaðið/Getty

Brenndu Svarta Wall Street til grunna

Upp úr sauð og í ó­eirðunum sem brutust út í kjöl­farið réðist múgur vopnaðra hvítra manna inn í Greenwood hverfið í norður Tulsa og brenndu það til grunna með áður­nefndum af­leiðingum. Í Greenwood bjuggu um 10.000 svartir Banda­ríkja­menn og þar mátti finna mikið af verslunum og þjónustu í eigu svartra atvinnurekenda svo hverfið gekk undir nafninu Svarta Wall Street.

Múgurinn fór ráns­hendi um Greenwood, réðist inn á heimili fólks, brenndi þau til grunna og skaut fólk á götu úti. Þá var sprengjum varpað yfir hverfið úr flug­vélum og er það talið vera fyrsta loft­á­rásin á banda­rískri grundu. Um há­degi þann 1. júní 1921, eftir rúman sólar­hring af á­tökum, setti þjóð­varð­lið Okla­homa her­lög á Tulsa sem batt loks enda á ó­eirðirnar.

Sam­kvæmt niður­stöðum skýrslu sem skrifuð var í um­boði banda­rísku ríkis­stjórnarinnar árið 2001 létust hátt í 300 manns í ó­eirðunum, hundruð særðust, 8000-10.000 manns urðu heimilis­laus, 35 húsa­lengjur brunnu til grunna, 1470 heimili brunnu eða voru rænd og 6000 manns voru færðir í fanga­búðir.

Í skýrslunni, sem kom út þegar 80 ár voru liðin frá at­burðinum, var mælt með því að fórnar­lömb ó­eirðanna og af­kom­endur þeirra fengju greiddar stríðs­skaða­bætur vegna þess sem þeir gengu í gegnum en tuttugu árum síðar bólar enn ekkert á slíkum skaða­bótum.