Í dag er al­þjóð­legur þol­marka­dagur jarðarinnar ársins 2022. Það þýðir að heims­byggðin hefur nú gengið svo á auð­lindir jarðarinnar að þær verða ekki endur­nýjaðar á árinu. Mann­kynið er í reynd komið í yfir­drátt á auð­lindum það sem eftir er af árinu, eins og hefur verið raunin öll síðustu ár.

Sam­tökin Global Foot­print Network reikna út hve­nær þol­marka­dagurinn rennur upp á ári hverju. Við út­reikning dag­setningarinnar eru lífs­geta plánetunnar annars vegar og vist­spor mann­kynsins hins vegar reiknuð í svo­kölluðum jarð­hekturum. Einn jarð­hektari er skil­greindur af Land­vernd sem meðal­geta á­kveðins svæðis á jörðinni til að nota til ræktunar, orku­fram­leiðslu og allrar neyslu.

Global Foot­print Network reiknar þol­marka­daginn með því að deila lífs­getu plánetunnar með vist­spori mann­kynsins og marg­falda síðan með daga­fjölda ársins.

Þol­marka­dagur ársins 2022 er einum degi á undan þol­marka­degi síðasta árs, sem var 29. júlí. Þessi dag­setning hefur þó ört verið að færast framar á daga­talið með hverju árinu frá 1970, þegar dag­setningin var fyrst reiknuð. Það ár var þol­marka­dagurinn í lok desember en á tíunda ára­tugnum hafði hann færst tveimur mánuðum framar og árið 2020 var hann kominn fram í ágúst.

Jóhannes Bjarki segir Umhverfisstofnun nota þolmarkadaginn til að minna fólk á að stilla neyslu í hóf og nota minna af einnota plasti.
Mynd/Aðsend

„Við setjum þetta inn í daga­talið hjá okkur og notum þol­marka­daginn til að minna fólk á að stilla neyslu í hóf, ferðast kannski með öðrum hætti og reyna að nota minna af ein­nota plasti og öðru slíku,“ segir Jóhannes Bjarki Urbancic Tómas­son, um­hverfis­sér­fræðingur hjá Um­hverfis­stofnun. „Það spilar allt inn í. Við vitum sirka innan hvaða ramma við þurfum að lifa og við erum búin að setja okkur mark­mið í Parísar­sam­komu­laginu.

„Þetta er ekki vanda­mál sem ein­staklingar bera á­byrgð á og heldur ekki vanda­mál sem ein­staklingar leysa einir,“ segir Jóhannes. „Þetta er sam­eigin­legt vanda­mál ekki bara Ís­lendinga, heldur allra. Við þurfum öll að bera ein­hverja á­byrgð á öllum stigum, hjá stjórn­völdum, fyrir­tækjum og ein­stak­lingum. Það þurfa allir að gera vel til að milda á­hrifin af þessu hnatt­ræna vanda­máli.“

Auður telur algeran skort á viðbrögðum einkenna afstöðu stjórnvalda þrátt fyrir að afleiðingar þessa auðlindayfirdráttar verði sífellt skýrari.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Global Foot­print Network birtir einnig dag­setningar þol­marka­daga sem reiknaðir eru út frá stökum ríkjum. Ís­land er ekki meðal þessara ríkja en Auði Önnu Magnús­dóttur, fram­kvæmda­stjóra Land­verndar, líst vel á þá hug­mynd að Ís­land bættist í hóp ríkjanna þar sem þol­marka­dagurinn er reiknaður og birtur.

„Dan­mörk og hin Norður­löndin hafa verið með þol­marka­daga í mars,“ segir Auður. „Við getum gert ráð fyrir því að Ís­land sé á svipuðum slóðum. En reikningurinn er byggður á losunar­tölum að miklu leyti, og losun á Ís­landi á hvern íbúa er mjög há. Hún er hærri en á flestum hinum Norður­löndunum. Síðan er þetta líka á­sókn í auð­lindir og hvort þær eru nýttar með sjálf­bærum hætti.“

Auður telur al­geran skort á við­brögðum ein­kenna af­stöðu stjórn­valda þrátt fyrir að af­leiðingar þessa auð­linda­yfir­dráttar verði sí­fellt skýrari. „Það er hægt að líta á lofts­lagið sem auð­lind, en það er auð­lind sem er sam­eigin­leg og hlýðir engum landa­mærum. Lofts­lagið getur tekið við á­kveðnu magni af gróður­húsa­loft­tegundum og það er langt síðan við höfum farið fram úr því. Hafið tekur líka við mikið af gróður­húsa­loft­tegundum og hafið er að hlýna og súrna vegna losunar gróður­húsa­loft­tegunda.“