Ólafur Ragnar Gríms­son kvartaði á dögunum yfir göngu­stíg, skammt frá heimili hans, í Reykja­hverfi við Varm­á, og þver­tekur fyrir að hann hafi sjálfur staðið í vegi fyrir úr­bótum. Hann segist ekkert hafa heyrt frá bæjar­yfir­völdum í Mos­fells­bæ.

Það vakti að vonum at­hygli þegar for­setinn fyrr­verandi gagn­rýndi bæjar­yfir­völd í Mos­fells­bæ á sam­fé­lags­miðlinum Twitter á dögunum. Þar birti Ólafur Ragnar myndir frá göngu­túr sínum eftir stíg skammt frá Varm­á þar sem sjá mátti að lækur hafði flætt yfir bakka sína.

„Eftir nótt mikilla rigninga og ó­veðurs í fjöllunum er lækurinn fyrir utan húsið okkar allt í einu gríðar­stór,“ skrifaði Ólafur á ensku. „Og jafn­vel enn kraft­meiri niður í móti. Og þverar göngu­stíginn! Eftir ára­tug af van­rækslu af hálfu bæjar­stjórnar: Er þetta niður­staðan!“

Frétta­blaðið hafði í kjöl­farið veður af því að Mos­fells­bær hefði undan­farin ár reynt að færa um­ræddan stíg til betri vegar án árangurs vegna þess að Ólafur Ragnar hefði einn eig­enda ekki séð sér fært að gefa eftir tvo metra af lóð sinni í Reykja­hverfi.

„Nei þetta er ekki rétt!“ segir fyrr­verandi for­setinn í skrif­legu svari við fyrir­spurn Frétta­blaðsins vegna málsins. Ólafur Ragnar segir að myndin sem hann hafi birt á Twitter hafi verið tekin rúm­lega 300 metra frá hans eigin landi.

„Það hefur verið alls­konar fyrir­sláttur síðast­liðinn ára­tug en ég hef bara búið hér í fimm ár. Ef stígurinn ætti að vera tvo metra innar hjá mér væri hann kominn langt inn á lóð!“ skrifar Ólafur Ragnar og í­trekar að hann hafi aldrei fengið neinar til­lögur frá bænum.

Stígurinn er nálægt húsi Ólafs Ragnars og segjast bæjaryfirvöld vilja leysa málið í sátt við íbúa.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hann segist hafa rætt við Harald Sverris­son, bæjar­stjóra, að eigin frum­kvæði fyrir þremur til fjórum árum. Síðan hafi hann ekkert heyrt utan þess þegar bankað var upp á hjá honum vegna skýrslu­gerðar sem Ólafur Ragnar kunni ekki frekari deili á.

„Ég held að bærinn eyði meiru í skýrslur og nefndar­fundi en við­gerðir sem myndu ekki kosta nema 1-2 milljón og tækju tvo daga!“ segir Ólafur Ragnar. „Í staðinn mörg ár í nefndar­fundi og skýrslur!“

Vonast eftir úr­bótum síðar á árinu

Arnar Jóns­son, for­stöðu­maður þjónustu og sam­skipta­deildar, segir í skrif­legu svari til blaðsins að úr­bætur á stígnum hafi tafist þar sem megin­hluti hans, þar sem bakka­rof í vatna­vöxtum er mest, liggi í gegnum einka­lönd íbúa.

Slíkt kalli á sam­ráð og sam­vinnu við íbúa um út­færslu, sem hingað til hefur ekki tekist. Eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst er Ólafur Ragnar einn þessara íbúa.

„Á þeim svæðum þar sem bakka­rof er hvað mest er flókið að út­færa lausnir með öðrum hætti en að færa stíginn 1-2 metra innar á land íbúa og ekki hefur tekist að ná sam­komu­lagi um það hingað til og á því skeri hefur málið steytt,“ skrifar Arnar.

Ólafur Ragnar í göngutúr við Varmá með Samson síðasta vetur.
Fréttablaðið/Valli

Hann segir að Varm­á sé á náttúru­minja­skrá og allar fram­kvæmdir við hana háðar leyfi Um­hverfis­stofnunar og mikil­vægt að vinna að varan­legum úr­bótum í sátt við náttúruna og íbúa.

„Undir­búningur vinnu við varan­legar úr­bætur á göngu­stígnum með­fram Varm­á stendur yfir en hefur reynst tíma­frekur þar sem að hanna þarf stíginn og finna bestu út­færslu á hverjum stað fyrir sig,“ skrifar Arnar um málið.

„Vonir Mos­fells­bæjar standa til þess að vinna við varan­legar úr­bætur á stígnum geti hafist síðar á þessu ári í sam­vinnu við íbúa sem eiga það land er liggur að stígum og sam­kvæmt fjár­hags­á­ætlun ársins er fjár­heimild til þess.“

Arnar segir mark­miðið að finna lausn sem allir land­eig­endur geta sætt sig við. „Bæjar­stjórn hefur fjár­magnað verk­efnið og þar liggur stefnu­mörkunin en að­gerðir bíða þar til að sam­komu­lag hefur náðst við eig­endur landsins.“

Bæjarstjórn segir umbætur á stígnum hafa strandað á íbúum.
Fréttablaðið/Anton Brink