Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands kveðst undrast það mjög hvernig íslenskir ráðamenn héldu á málum í aðdraganda þess að bandaríski herinn yfirgaf herstöðina á Miðnesheiði haustið 2006.

Hann átelur bæði Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, sem báðir gegndu embætti forsætisáðherra á árunum fyrir brottför hersins, fyrir að hafa ekki kynnt sér betur hvernig valdaþræðirnir liggja í Washington og látið fyrir vikið vera að ræða við áhrifafólkið sem öllu réði í þessum efnum.

Unnu ekki heimavinnuna sína

Sjálfur hafi hann orðið forviða í einni ferða sinna til höfuðborgar Bandaríkjanna þegar John Warner, formaður hermálanefndar Bandaríkjaþings og einn áhrifamesti leiðtogi Repúblikana tjáði honum að enginn íslenskur ráðamaður hefði haft samband við sig vegna málefna Keflavíkurstöðvarinnar. Ólafur Ragnar segir Warner hafa verið lykilmann í málefnum herstöðvarinnar á þessum tíma – og í reynd getað haft örlög herstöðvarinnar á Íslandi í hendi sér.

Davíð og Halldór og allir þeirra embættismenn hafi einfaldlega ekki unnið heimavinnuna sína – og talið nægja að halda utan til Washington til að ræða við Bush forseta þegar fyrir hafi legið að allar ákvarðanir um örlög erlendra herstöðva væru teknar í Capitol Hill, af John Warner og hans mönnum. Það hljóti að kalla á sérstaka úttekt og skoðun hvernig íslensk stjórnvöld fóru að ráðum sínum á þessum örlagaríku árum áður en þúsundir bandarískra hermanna yfirgáfu Keflavíkurstöðina.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í einkar opinskáu viðtali Sigmundar Ernis við Ólaf Ragnar í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut sem frumsýndur var á fimmtudagskvöld – en brot úr honum má sjá hér á eftir.