Ólafur Ragnar Gríms­son, fyrr­verandi for­seti Ís­lands, segist vilja sjá stjórn­mála­menn brydda upp á nýjum að­ferðum við ríkis­stjórnar­myndun. Hann segist styðja hug­myndina um minni­hluta­stjórn. Horfa má á stiklu úr þættinum neðst í fréttinni. 

Ólafur Ragnar er gestur Páls Magnús­sonar í sjón­varps­þætti hans Pólitík með Pál á Hring­braut. Þeir ræða komandi Al­þingis­kosningar og stjórnar­myndun í kjöl­farið.

Ýmsar rang­hug­myndir um stjórnar­myndun

Að­spurður út í stöðuna í könnunum í Al­þingis­kosningunum nú, þegar líkur eru á að níu flokkar muni komast inn á þing og skoðanir sínar á stjórnar­myndunar­um­boði for­seta Ís­lands og myndun ríkis­stjórnar, segir Ólafur Ragnar að staðan geti orðið afar snúin.

„Það hafa auð­vitað verið uppi meðal þjóðarinnar, fjöl­miðla og jafn­vel foringja flokkanna og kannski for­setanna á fyrri tíð, svona ýmsar rang­hug­myndir varðandi það hvers eðlis þetta stjórnar­myndunar­ferli er,“ segir fyrr­verandi for­setinn. 

„Um tíma töldu menn að þetta væri eitt­hvað ritúal þar sem for­setinn út­hlutaði um­boðinu til stjórnar­myndunar og allir héldu á sér höndum á meðan sá sem var með um­boðið stýrði at­burða­rásinni og það þótti al­gjör dóna­skapur ef aðrir töluðu saman á þeim tíma.“ Ólafur Ragnar segir þetta hafa byggt á venju­bundinni hugsun og ekki hafa átt sér stoð í stjórn­kerfi landsins.

„Og menn gátu svo bara splundrað þessum venjum eins og Davíð Odds­son gerði varðandi um­boðið þegar hann myndaði fyrst ríkis­stjórn með Al­þýðu­flokknum og svo með Fram­sóknar­flokknum og gerði hvort tveggja bara út í bæ, nánast í leyni og lét eigin­lega engan vita og vafa­mál hvort for­setinn hafi einu sinni vitað það þangað til það var bara búið.“

Ólafur Ragnar segir hægt að rekja fjöl­mörg dæmi sem sýni það að allar kenningar um virðingar­röð flokkanna, stærðar­röð, sigur­vegara­röð, um­boðs­leik og svo fram­vegis sé allt saman venju­bundið ferli sem breyst hefur í gegnum tíðina. 

Ólafur Ragnar óttast stjórnarkreppu eftir kosningar verði haldið í gömlu aðferðirnar við myndun ríkisstjórnar.

Óttast að gömlu að­ferðirnar muni valda stjórnar­kreppu

„En eftir að hafa hug­leitt tölu­vert undan­farið væntan­leg úr­slit þá finnst mér nokkuð aug­ljóst að þetta kerfi við stjórnar­myndun getur orðið til trafala,“ segir Ólafur Ragnar. „Vegna þess að nú erum við með flokka sem eru ekki að­eins ó­líkir að stærð, þeir eru mjög ó­líkir að eðli.“

„Þú ert í fyrsta lagi með hefð­bundna gamal­dags hug­mynda­fræði­flokka eins og Fram­sóknar­flokkinn og Sjálf­stæðis­flokkinn og að nokkru leyti Vinstri græn. Svo ertu með svona foringja­flokka sem eru í stíl við það sem var þegar Albert Guð­munds­son, Sverrir Her­manns­son, Jóhanna, Vil­mundur og Hannibal voru að mynda flokka. Mið­flokkurinn er á­gætt dæmi um slíkan flokk,“ segir Ólafur Ragnar.

„Síðan ertu með flokka sem eru það sem ég myndi kalla svona lax­fé­laga­flokka. Þeir eru bara vöru­merki á ein­hverjum af hópi fólks sem hefur á­kveðið að starfa saman en er ekkert mjög fjöl­mennur, kannski 50-100 manns, tala aðal­lega saman á netinu og Björt fram­tíð var á­gætt dæmi um svo­leiðis flokk,“ segir fyrr­verandi for­setinn. 

Sést hafi hvað getur gerst þegar slíkur flokkur kemst í ríkis­stjórn með á­kvörðun Bjartrar fram­tíðar um slit á ríkis­stjórn árið 2017 vegna máls sem Ólafur Ragnar segir ekkert mál hafa verið og lagað á ein­faldan hátt í stjórn­kerfinu. „Og Við­reisn hljóp á eftir því, því hún var líka óvön.“

„Þannig þú ert ekki bara með flokka þar sem úr­slit geta sýnt tvo, þrjá flokka með sex eða sjö prósent, tvo flokka með tíu prósent, heldur ertu með þrjár tegundir af flokkum sem starfa mjög ó­líkt,“ segir Ólafur Ragnar. Hann segist óttast að gömlu að­ferðirnar við stjórnar­myndun geti valdið stjórnar­kreppu.

Minni­hluta­stjórn geti orðið hluti af nýju kerfi

„Og þess vegna finnst mér alveg koma til greina, ef við viljum forðast lang­varandi stjórn­mála­kreppu í landinu, sem gæti orðið ef menn ætla að fylgja gömlu að­ferðunum, að menn á­kveði bara að horfa yfir sviðið kalt og ró­lega og segja: „Nú þurfum við bara nýtt kerfi.“ Og hvernig getur það kerfi litið út svo það verði far­sælt?“ spyr Ólafur Ragnar.

„Það gæti til dæmis litið þannig út að tveir eða þrír flokkar taki sig saman um að mynda ríkis­stjórn sem yrði að forminu til minni­hluta­stjórn en ein­hverjir tveir eða þrír aðrir flokkar myndu verja hana van­trausti. Þetta gæti verið, svo ég gefi kon­krete dæmi að Fram­sóknar­flokkurinn, Vinstri græn og Sam­fylking mynduðu ríkis­stjórn en Píratar eða Flokkur fólksins eða ein­hverjir aðrir á­kveða að verja hana van­traust nú eða Sjálf­stæðis­flokkurinn, Fram­sóknar­flokkur og Við­reisn myndu mynda ríkis­stjórn og kannski Mið­flokkurinn myndu verja hana van­trausti. Sig­mundur er nú vanur því að verja ríkis­stjórn van­trausti.“

Ólafur Ragnar segist telja að slíkt form yrði bæði betra varðandi gang­virki ríkis­stjórnarinnar sjálfar, því erfitt yrði að halda fimm flokka stjórn saman með ó­líkum tegundum af flokkum, en yrði líka heil­brigt fyrir lýð­ræðið og þing­ræðið í landinu og stöðu þingsins.

„Að ís­lensk stjórn­mál myndu venja sig á það að ríkis­stjórnin þyrfti að semja sig í gegnum þingið. Þá er mikil­vægt að á­rétta það að það að verja ríkis­stjórn van­rausti felur ekki í sér að þurfa að skrifa upp á á­kveðin stefnu­mál hennar. Því sá flokkur sem segist ætla að verja hana van­trausti hann getur haldið á­fram að gagn­rýna ríkis­stjórnina mál­efnan­lega í ein­staka málum en hann ætli bara að leyfa henni að vera við völd.“

Hann segir að sér finnist að foringjar flokkanna og for­setinn þurfi að velta því fyrir sér hvort að gamla kerfið geti orðið til trafala. „Og að það eigi ekkert að fara að fylgja því eftir kjör­dag, heldur á­kveðið menn bara að nú eru nýir tímar og að það verði skoðað hvort að það sé ekki bara betra að ein­hverjir tveir þrír flokkar myndi sam­henta ríkis­stjórn sem tveir eða þrír aðrir verji van­trausti og gangi bara í það verk en fari ekki að taka á­hættuna á lang­varandi stjórnar­kreppu.“

Pólitík með Páli er á dag­skrá Hring­brautar í kvöld í opinni dag­skrá kl. 19:30.