Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, segist vilja sjá stjórnmálamenn brydda upp á nýjum aðferðum við ríkisstjórnarmyndun. Hann segist styðja hugmyndina um minnihlutastjórn. Horfa má á stiklu úr þættinum neðst í fréttinni.
Ólafur Ragnar er gestur Páls Magnússonar í sjónvarpsþætti hans Pólitík með Pál á Hringbraut. Þeir ræða komandi Alþingiskosningar og stjórnarmyndun í kjölfarið.
Ýmsar ranghugmyndir um stjórnarmyndun
Aðspurður út í stöðuna í könnunum í Alþingiskosningunum nú, þegar líkur eru á að níu flokkar muni komast inn á þing og skoðanir sínar á stjórnarmyndunarumboði forseta Íslands og myndun ríkisstjórnar, segir Ólafur Ragnar að staðan geti orðið afar snúin.
„Það hafa auðvitað verið uppi meðal þjóðarinnar, fjölmiðla og jafnvel foringja flokkanna og kannski forsetanna á fyrri tíð, svona ýmsar ranghugmyndir varðandi það hvers eðlis þetta stjórnarmyndunarferli er,“ segir fyrrverandi forsetinn.
„Um tíma töldu menn að þetta væri eitthvað ritúal þar sem forsetinn úthlutaði umboðinu til stjórnarmyndunar og allir héldu á sér höndum á meðan sá sem var með umboðið stýrði atburðarásinni og það þótti algjör dónaskapur ef aðrir töluðu saman á þeim tíma.“ Ólafur Ragnar segir þetta hafa byggt á venjubundinni hugsun og ekki hafa átt sér stoð í stjórnkerfi landsins.
„Og menn gátu svo bara splundrað þessum venjum eins og Davíð Oddsson gerði varðandi umboðið þegar hann myndaði fyrst ríkisstjórn með Alþýðuflokknum og svo með Framsóknarflokknum og gerði hvort tveggja bara út í bæ, nánast í leyni og lét eiginlega engan vita og vafamál hvort forsetinn hafi einu sinni vitað það þangað til það var bara búið.“
Ólafur Ragnar segir hægt að rekja fjölmörg dæmi sem sýni það að allar kenningar um virðingarröð flokkanna, stærðarröð, sigurvegararöð, umboðsleik og svo framvegis sé allt saman venjubundið ferli sem breyst hefur í gegnum tíðina.

Óttast að gömlu aðferðirnar muni valda stjórnarkreppu
„En eftir að hafa hugleitt töluvert undanfarið væntanleg úrslit þá finnst mér nokkuð augljóst að þetta kerfi við stjórnarmyndun getur orðið til trafala,“ segir Ólafur Ragnar. „Vegna þess að nú erum við með flokka sem eru ekki aðeins ólíkir að stærð, þeir eru mjög ólíkir að eðli.“
„Þú ert í fyrsta lagi með hefðbundna gamaldags hugmyndafræðiflokka eins og Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn og að nokkru leyti Vinstri græn. Svo ertu með svona foringjaflokka sem eru í stíl við það sem var þegar Albert Guðmundsson, Sverrir Hermannsson, Jóhanna, Vilmundur og Hannibal voru að mynda flokka. Miðflokkurinn er ágætt dæmi um slíkan flokk,“ segir Ólafur Ragnar.
„Síðan ertu með flokka sem eru það sem ég myndi kalla svona laxfélagaflokka. Þeir eru bara vörumerki á einhverjum af hópi fólks sem hefur ákveðið að starfa saman en er ekkert mjög fjölmennur, kannski 50-100 manns, tala aðallega saman á netinu og Björt framtíð var ágætt dæmi um svoleiðis flokk,“ segir fyrrverandi forsetinn.
Sést hafi hvað getur gerst þegar slíkur flokkur kemst í ríkisstjórn með ákvörðun Bjartrar framtíðar um slit á ríkisstjórn árið 2017 vegna máls sem Ólafur Ragnar segir ekkert mál hafa verið og lagað á einfaldan hátt í stjórnkerfinu. „Og Viðreisn hljóp á eftir því, því hún var líka óvön.“
„Þannig þú ert ekki bara með flokka þar sem úrslit geta sýnt tvo, þrjá flokka með sex eða sjö prósent, tvo flokka með tíu prósent, heldur ertu með þrjár tegundir af flokkum sem starfa mjög ólíkt,“ segir Ólafur Ragnar. Hann segist óttast að gömlu aðferðirnar við stjórnarmyndun geti valdið stjórnarkreppu.
Minnihlutastjórn geti orðið hluti af nýju kerfi
„Og þess vegna finnst mér alveg koma til greina, ef við viljum forðast langvarandi stjórnmálakreppu í landinu, sem gæti orðið ef menn ætla að fylgja gömlu aðferðunum, að menn ákveði bara að horfa yfir sviðið kalt og rólega og segja: „Nú þurfum við bara nýtt kerfi.“ Og hvernig getur það kerfi litið út svo það verði farsælt?“ spyr Ólafur Ragnar.
„Það gæti til dæmis litið þannig út að tveir eða þrír flokkar taki sig saman um að mynda ríkisstjórn sem yrði að forminu til minnihlutastjórn en einhverjir tveir eða þrír aðrir flokkar myndu verja hana vantrausti. Þetta gæti verið, svo ég gefi konkrete dæmi að Framsóknarflokkurinn, Vinstri græn og Samfylking mynduðu ríkisstjórn en Píratar eða Flokkur fólksins eða einhverjir aðrir ákveða að verja hana vantraust nú eða Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkur og Viðreisn myndu mynda ríkisstjórn og kannski Miðflokkurinn myndu verja hana vantrausti. Sigmundur er nú vanur því að verja ríkisstjórn vantrausti.“
Ólafur Ragnar segist telja að slíkt form yrði bæði betra varðandi gangvirki ríkisstjórnarinnar sjálfar, því erfitt yrði að halda fimm flokka stjórn saman með ólíkum tegundum af flokkum, en yrði líka heilbrigt fyrir lýðræðið og þingræðið í landinu og stöðu þingsins.
„Að íslensk stjórnmál myndu venja sig á það að ríkisstjórnin þyrfti að semja sig í gegnum þingið. Þá er mikilvægt að árétta það að það að verja ríkisstjórn vanrausti felur ekki í sér að þurfa að skrifa upp á ákveðin stefnumál hennar. Því sá flokkur sem segist ætla að verja hana vantrausti hann getur haldið áfram að gagnrýna ríkisstjórnina málefnanlega í einstaka málum en hann ætli bara að leyfa henni að vera við völd.“
Hann segir að sér finnist að foringjar flokkanna og forsetinn þurfi að velta því fyrir sér hvort að gamla kerfið geti orðið til trafala. „Og að það eigi ekkert að fara að fylgja því eftir kjördag, heldur ákveðið menn bara að nú eru nýir tímar og að það verði skoðað hvort að það sé ekki bara betra að einhverjir tveir þrír flokkar myndi samhenta ríkisstjórn sem tveir eða þrír aðrir verji vantrausti og gangi bara í það verk en fari ekki að taka áhættuna á langvarandi stjórnarkreppu.“
Pólitík með Páli er á dagskrá Hringbrautar í kvöld í opinni dagskrá kl. 19:30.