Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, segir íslenska stjórnsýslu aldrei hafa getað staðsett forsetaembættið í valdastrúktúr lýðveldisins – og fyrir vikið hafi það oft hent í sinni forsetatíð að hann hafi reynt á þolrif ráðherra og annarra ráðamanna í opinberum heimsóknum heima og erlendis; mörgum þeirra hafi sennilega gramist hvað hann var þar frekur til fjörsins.

Þurftu að bugta sig fyrir gömlum andstæðingi

Í tilviki hans og Davíðs Oddssonar, fyrrverandi forsætisráðherra um langt árabil hafi þetta verið viðkvæmur dans á línunni, þeir hafi boðið hvor öðrum upp í manúett – og oftsinnis stigið hart á línuna, báðir tveir, en ekkert endilega yfir hana, svo hann muni.

Vissulega hafi það verið skrýtið fyrir þá báða, allt frá fyrstu tíð Ólafs Ragnars á forsetastóli og Davíðs í forsætisráðuneytinu, að sá síðarnefndi hafi, ásamt öðrum flokkshestum í Sjálfstæðisflokknum, þurft að fara að bugta sig fyrir þessum gamla andstæðingi sínum eftir óteljandi orrahríðir fyrri tíðar.

En þetta hafi verið manúett – einmitt, línudans.

Hér fyrir neðan má sjá klippu þar sem Ólafur gantast með samskipi sín við sinn gamla andstæðing.

Ólafur Ragnar opnar íslenska stjórnsýslu upp á gátt í einlægu og einkar opinskáu samtali sínu við Sigmund Erni í viðtalsþættinum Mannamáli sem frumsýndur verður á Hringbraut annaðkvöld.

Þátturinn er raunar tvöfaldur, sá seinni sýndur á fimmtudag í næstu viku – og er óhætt að segja að hér láti forseti lýðveldisins frá 1996 til 2016 og fyrrum fjármálaráðherrann og formaður Alþýðubandalagsins allt flakka um samskipti sín við valdamenn heima og erlendis.