„Gleymum því ekki að þegar ég hitti Pútín fyrst árið 2002 þá var það ég sem setti norðurslóðir á dagskrá þess fundar. Hann hafði engan áhuga. Sagði bara, þú talar bara við ríkisstjórana fyrir norðan okkur um það,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, stjórnarformaður Hringborðs Norðurslóða á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

„Núna eru norðurslóðir Rússlands ábyrgar fyrir rúmlega tuttugu prósent af gjaldeyristekjum Rússlands," segir Ólafur.

Um sé að ræða orku, sérlega gas á norðurslóðum Rússlands, sem sé lykillinn að efnahagssamstarfi Rússlands við Kína, Japan, Kóreu og Evrópu.

Vladimir Putin Rússlandsforseti

Ólafur Ragnar telur verkefni tengd norðurslóðum færa Ísland í miðju alþjóðlegra samskipta.

„Nú er staðreyndin sú að öll helstu forysturíki heims eru mætt á norðurslóðir.“

Ísland í lykilstöðu

Hann segir að landfræðileg staða Íslands sé algerlega ný í þessum efnum.

„Núna erum við í miðdepli geopólitískrar gerjunar þar sem að Kína, Bandaríkin, Rússland, Frakkland, Þýskaland, Japan og Kórea eru öll að reyna að koma sér í stöðu. Og það er mjög mikilvægt að Íslendingar átti sig á þeirri þróun,“ segir Ólafur.

Aðalfundur Norðurskautsráðsins verður haldinn síðar í þessum mánuði á Íslandi. Ísland hefur gengt formennsku í ráðinu síðastliðin tvö ár.

Norðurslóðir og framtíðin

„Vegna þess að svokallaðir sjaldgæfir málmar, sem eru lykilatriði í hreinni orku, jafnvel í herflugvélum, þá er Kína með nánast einokun á þeim markaði í dag og ef Bandaríkin og önnur vesturveldi ætla ekki að vera háð Kína varðandi upplýsingatækni, hreina orku og jafnvel þróun hergagna og orrustuþota þá verður að virkja námurnar á norðurslóðum, sérstaklega í Grænlandi,“ Segir Ólafur Ragnar en vandinn sé þá nú að sinna því verkefni án þess að ögra loftslaginu og eyðileggja náttúru.

Hefði Grænland verið til sölu

Auðlindir eru miklar á norðurslóðum og út frá kapítalískum sjónarmiðum ætti ásóknin að vera mikil. „Þetta mun auðvitað skapa erfið viðfangsefni. „ Margir hlógu nú þegar Trump sagði á Twitter að hann myndi kaupa Grænland en það var kannski útfrá sjónarmiðum Bandaríkjanna ekki svo vitlaus hugmynd,“ segir hann og bætir við: „Ef það hefði verið til sölu.“