Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, var með töluvert hærri mánaðarlaun en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í fyrra samkvæmt álagningarskrá Ríkisskattstjóra sem lögð var fram í gærmorgun.

Ólafur Ragnar var með 3.824.467 krónur á meðan Guðni var með 3.316.018 krónur í mánaðarlaun, munurinn nemur því rúmri hálfri milljón.

Tekið skal fram að fjármagnstekjur þeirra eru ekki inn í þessari tölu heldur berstrípuð mánaðarlaun.

Guðni var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningunum 25. júní árið 2016 og hefur gegnt embættinu frá 1. ágúst sama ár.

Fljótlega eftir að Guðni tók við sem forseti ákvað Kjararáð að hækka laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar og vakti það mikla reiði í samfélaginu.

Laun þingmanna hækkuðu um tæplega 300 þúsund krónur og ráðherrar um 570 þúsund krónur. Þá hækkuðu laun Guðna um hálfa milljón og sagði Guðni sjálfur að hann hefði ekki beðið um þessa launahækkun og að hann þyrfti hana ekki.

Guðni hefur gefið launahækkunina til góðgerðarmála alla tíð síðan, eða um 300 þúsund krónur mánaðarlega.

Frétta­blaðið mun í sam­starfi við DV birta fréttir úr á­lagningarskrá Ríkis­skatt­stjóra sem munu birtast í dag og næstu daga.