„Ég er búinn að svipast eftir honum í meira en mánuð. Ég er afar ánægður með að hafa náð honum loksins,“ segir Ólafur Örn Ólafsson sem fyrr í dag náði að handsama japanskan Koi-fisk upp úr Elliðaánum.

Í júnílok greindu helstu fjölmiðlar landsins frá því að blaðamaðurinn Svavar Hávarðarson hefði rekið augun í Koi-fisk í ánni og vöktu þau tíðindi nokkra athygli. Sérstaklega hjá Ólafi en hann þekkir tegundina vel.

„Ég er með 100 þúsund lítra tjörn í garðinum og einhverja sextíu fiska þar. Ég tók því þennan, setti hann í smá lyfjabað og núna er hann kominn í tjörnina og unir sér vel,“ segir Ólafur.

Hann segir að Koi-fiskar geti gert mikinn usla í lífríkjum eins og Elliðaánum. „Þeir eru frekir og ryksuga upp hrogn og seiði annarra fiska. Það hefur einhver vitleysingur sleppt honum í ánna og mér brá við þau tíðindi,“ segir Ólafur.

Hann hafi því svipast reglulega um Elliðaárnar undanfarnar vikur.

kobifiskur0195.jpg

Ólafur Örn Ólafsson

„Ég sá svo tilkynningu í dag á Facebook-síðu Betra Breiðholts að hann hefði sést fyrir neðan stífluna. Ég dreif mig því þangað og þá var hann þarna að dóla sér undir brú,“ segir Ólafur Örn. Hann var með háf og fötu meðferðis og rauk út í ána og náði fiskinum strax.

„Ég er mjög feginn að þetta gekk. Hann fær gott heimili hjá mér,“ segir Ólafur Örn.